Innlent

Segir meirihluta hafa verið starfandi á Álftanesi

Sigurður Magnússon, fyrrverandi bæjarstjóri á Álftanesi.
Sigurður Magnússon, fyrrverandi bæjarstjóri á Álftanesi. Mynd/Anton Brink
Sigurður Magnússon, fráfarandi bæjarstjóri á Álftanesi, segir rangt að meirihlutalaust hefur verið í bæjarfélaginu í einn og hálfan mánuð. Hann telur eðlilegast að einn af bæjarfulltrúum Álftaneshreyfingarinnar myndi nýjan meirihluta með sjálfstæðismönnum.

Álftaneshreyfingin hlaut fjóra bæjarfulltrúa kjörna í kosningunum 2006 og Sjálfstæðisflokkurinn þrjá. Eftir talsverðan óróleika í bæjarpólitíkinni og ekki síst innan Álftaneshreyfingarinnar undanfarin misseri var Sigurði sagt upp störfum á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi. Margrét Jónsdóttir, einn af fjórum bæjarfulltrúum Álftaneshreyfingarinnar, studdi tillögu sjálfstæðismanna þess efnis.

Því hefur verið haldið fram að meirihlutalaust hefur verið í bæjarfélaginu í einn og hálfan mánuð. Sigurður segir að það sé rangt. Viðræður um endurskipulagningu meirihlutasamstarfsins hafi staðið yfir að undanförnu og á meðan hafi verið starfandi meirihluti í bæjarfélaginu.

„Þrátt fyrir vandræði höfum verið að reyna að leysa okkar mál," segir Sigurður um meirihlutasamstarfið. Ekki hafi verið um málefnaágreining að ræða heldur samstarfsvanda.

Sigurður telur eðlilegt að Margrét stígi skrefið til fulls og myndi nýjan meirihluta með þremur bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks. Annað væri ábyrgðarleysi af hennar hálfu þar sem hún studdi tillögur sjálfstæðismanna á fundinum í gær um annarsvegar vantraust á hann og hinsvegar nýjan forseta bæjarstjórnar úr röðum sjálfstæðismanna.

Þrátt fyrir að Sigurður stígi nú úr stóli bæjarstjóra kveðst hann bjartsýnn á gott gengi Álftaneshreyfingarinnar í næstu kosningum. Fjölgað hafi í baklandinu þrátt fyrir óeiningu meðal bæjarfulltrúa hreyfingarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×