Innlent

HS orka reynir að semja við lánardrottna

HS orka, orkufyrirtæki Reykjaness, á í samningum við lánardrottna sína, sem nú geta gjaldfellt hátt í 30 milljarða króna skuldir félagsins. Kaup Kanadamanna á hlut Orkuveitunnar í fyrirtækinu, velta á því að HS orka endursemji við lánardrottna.

HS orka, orkufyrirtæki Reykjaness, skuldar ríflega ríflega 29 milljarða króna. Skuldirnar hafa aukist mjög undanfarin misseri, vegna gengisfalls krónunnar.

HS orka uppfyllir ekki lengur kröfur um eiginfjárhlutfall, samkvæmt lánasamningum. Þess vegna mega lánardrottnar gjaldfella lánin.

Samkvæmt tilkynningu sem fylgir hálfsársuppgjöri HS orku, er verið að endursemja um lánin. Viðræður séu á lokastigi. Horfur um reksturinn séu góðar; að því gefnu að samningar takist um fjármögnun félagsins.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru helstu lánardrottnar HS orku Norræni fjárfestingabankinn, Evrópski fjárfestingabankinn og Evrópski þróunarbankinn. Norræni bankinn hefur lánað mest.

Bankarnir munu vera komnir nálægt lausn á málum HS orku sem þeir telja viðunandi og vænta menn þess að málin skýrist fljótlega.

Megnið af lánunum kom til meðan HS orka var í eigu opinberra aðila. Félagið er nú í einkaeigu. Geysir Green Energy á um 55% hlut og kanadíska félagið Magma um 43%.

Því má ætla, herma heimildir, að félaginu eigi nú eftir að bjóðast lakari lánakjör.

Samkvæmt samningi um sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur til Kanadamanna, sem birtur var í gær, þarf HS orka að ganga frá sínum málum, áður en sá samningur öðlast gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×