Innlent

Segja minnisblað KPMG mistúlkað í borgarráði

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur

Í bréfi sem KPMG, endurskoðunarfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, hefur sent fyrirtækinu kemur fram að minnisblað KPMG, sem lagt var fram í borgarráði síðastliðinn fimmtudag, hafi verið mistúlkað. Gerir endurskoðunarskrifstofan athugasemdir við fullyrðingar þar sem vitnað er til upplýsinga frá henni. Minnisblaðið snerist um mat á tilboði Magma Energy í hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni nú í kvöld. Þar segir ennfremur að í bókun, sem gerð var á fundi ráðsins segi meðal annars:

„Svörin frá KPMG staðfesta fullyrðingar fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um að forsendur meirihlutans við núvirðingu tilboðsins séu óeðlilegar."

Þessu mótmælir KPMG í bréfi sínu til Orkuveitunnar. Þar segir: „KPMG vill í þessu sambandi árétta að hvergi í minnisblaði okkar er slíkt orðalag notað né slíkar ályktanir dregnar í umfjöllun okkar."

Stjórnendur Orkuveita Reykjavíkur töldu nauðsynlegt að fá skýringar á minnisblaði KPMG, í ljósi fullyrðinga, sem settar voru fram um efni þess. KPMG svaraði spurningum fyrirtækisins og gerði auk þess þrjár athugasemdir við fullyrðingar í áðurnefndri bókun.

Hægt er að sjá bréf KPMG með þessari frétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×