Innlent

Engin búinn að kæra hjá Samfylkingu í SV

Heimir Már Pétursson skrifar
Árni Páll Árnason hreppti fyrsta sætið í prófkjörinu en 57 atkvæðum munaði á honum og Lúðvíki Geirssyni.
Árni Páll Árnason hreppti fyrsta sætið í prófkjörinu en 57 atkvæðum munaði á honum og Lúðvíki Geirssyni.

Engin kæra hefur borist vegna þeirra sem greiddu atkvæði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, og reyndust síðan ekki vera á kjörskrá. Stjórn kjördænmisráðsins og kjördæmisráðið í heild koma saman til fundar í kvöld.

Tæplega 150 manns greiddu atkvæði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, þótt þeir reyndust ekki vera á kjörskrá. Þessi atkvæði voru meðhöndluð eins og utankjörfundaratkvæði og sett í auðkennd umslög. Kjörstjórn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að dæma lang flest þeirra ógild, þegar fólkið fannst ekki á kjörskrá.

Aðeins munaði 57 atkvæðum á Árna Páli Árnasyni alþingismanni og Lúðvíki Geirssyni bæjarstjóra í Hafnarfirði í fyrsta sætið. Þetta mál minnir á prófkjör flokksins í sama kjördæmi í nóvember 2006 þegar 46 atkvæði skildu Þórunni Sveinbjarnardóttur og Gunnar Svavarsson að í fyrsta sætið.

Sex dögum eftir það prófkjör fannst atkvæðakassi á Álftanesi með 87 atkvæðum og var ákveðið að telja þau atkvæði, þótt atkvæðakassinn væri óinnsiglaður og búið að kynna niðurstöðu prófkjörsins. Við talningu þessara atkvæða minnkaði munurinn milli Þórunnar og Gunnars niður í 34 atkvæði, sem dugði þó ekki til að breyta stöðunni og Gunnar Svavarsson hélt fyrsta sætinu.

Þessi uppákoma varð til þess að þáverandi formaður kjörstjórnar sagði af sér. Kristján Guðmundsson formaður Kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi segir að í alla staði hafi verið staðið rétt og faglega að framkvæmd prófkjörsins nú. Frestur til að skrá sig í flokkinn eða á stuðningsmannalista hafi verið auglýstur og hann runnið út kl 18 hinn 10. mars, enda hafi netkosning hafist á miðnætti sama daga. Hann segir að stjórn kjördæmisráðsins og kjördæmisráðið muni funda seinnipartinn í dag eða í kvöld um framkvæmd prófkjörsins og þá verði mál þeirra sem kusu en voru ekki á kjörskrá og atkvæði ógild hjá, skoðað eins og annað.

Engin kæra hafi hins vegar borist vegna þessa máls og því reikni hann með að niðurstöðurnar standi, enda hafi umboðsmenn frambjóðenda verið við talningu atkvæða og verið sáttir við ákvörðun kjörstjórnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×