Innlent

Ráðherrar þurfa nú þegar að greina frá hagsmunum sínum

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í dag að tillögur sem lagðar voru fyrir Alþingi í gær um reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings eigi þegar í stað að gilda um ráðherra í ríkisstjórninni.

Í reglunum er kveðið á um að skrifstofa Alþingis skuli halda skrá, og birta opinberlega, um fjárhagslega hagsmuni alþingismanna svo og um trúnaðarstörf þeirra utan þings. Með setningu reglnanna ætlast forsætisnefnd til þess að alþingismenn skrái fjárhagslega hagsmuni sína og birti þá opinberlega. Gert er ráð fyrir að reglurnar verði endurskoðaðar fyrir 1. desember næstkomandi með það í huga að þá verði sett lög um þessa skráningu.

Í verkefnisskrá ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var þegar stjórnin var mynduð, var ákveðið að settar yrðu nýjar siðareglur í Stjórnarráðinu. Forsætisráðherra hefur nú falið starfshópi, sem skipaður verður fulltrúum forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og einum utanaðkomandi sérfræðingi að semja drög að siðareglum fyrir embættismenn og aðra starfsmenn innan stjórnsýslu ríkisins. Starfshópurinn skal skila tillögum fyrir 15 september.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×