Íslenski boltinn

Atli: Má búast við að Arnar byrji í kvöld

Elvar Geir Magnússon skrifar
Atli Eðvaldsson. Mynd/Arnþór
Atli Eðvaldsson. Mynd/Arnþór

Þrír leikir verða í Pepsi-deild karla í kvöld. Þar á meðal er viðureign Vals og Fylkis á Hlíðarenda. Fylkir er í fjórða sæti og Valur er stigi á eftir. Atli Eðvaldsson, þjálfari Vals, býst við erfiðum leik.

„Þetta er bara næsta skref. Leikurinn gegn KR var mjög erfiður og ég býst við að leikurinn í kvöld verði alls ekki auðveldari. Ég hef ekki mikið séð til Fylkisliðsins en það sem ég veit um þá er að þeir eru í hörkugír. Það er mjög erfitt að spila á móti þeim og það sást vel í leiknum við FH," sagði Atli.

„FH-ingar voru heppnir að ná stigum gegn þeim. Ef við vinnum sigur í kvöld þá komumst við upp fyrir Fylki, það er það góða við þetta. Það er stutt í allar áttir."

Marel Baldvinsson meiddist í leiknum gegn KR og verður ekki með Valsliðinu í kvöld. Hafþór Ægir Vilhjálmsson gæti þó verið með. „Hafþór er allur að koma til og Steinþór er kominn í lag," sagði Atli.

Bjarki Gunnlaugsson er þessa stundina í læknisskoðun en ætti að koma til móts við Valsliðið á morgun. Arnar Gunnlaugsson er þó orðinn löglegur og segir Atli að það megi alveg búast við honum í byrjunarliðinu í kvöld. „Það er stór möguleiki á að það verði," sagði Atli Eðvaldsson.

Leikur Vals og Fylkis hefst klukkan 20 í beinni á Stöð 2 Sport. Tveir leikir verða flautaðir á klukkan 19:15, ÍBV fær Fram í heimsókn og Þróttur tekur á móti Breiðabliki. Fylgst verður með öllum leikjunum á Boltavakt Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×