Innlent

Alvarlegt ef vitnum er hótað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður segir að samstundis hafi verið fengið nálgunarbann á manninn. Mynd/ E. Ól.
Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður segir að samstundis hafi verið fengið nálgunarbann á manninn. Mynd/ E. Ól.
„Það er mjög alvarlegt ef það gerist að menn ætla að beita ógnunum og hótunum gagnvart vitnum i málum," segir Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi. Karlmaður var handtekinn í Þorlákshöfn á fimmtudaginn en þar hafði hann í hótunum um að manni mein sem hafði borið vitni gegn honum í dómsmáli daginn áður. Ólafur Helgi segir að það valdi sér ákveðnum áhyggjum að menn hóti ofbeldi í slíkum tilfellum.

Ólafur Helgi segir að eina úrræðið sem sé fyrir hendi í tilfelli sem þessu sé nálgunarbann. Til þessa úrræðis hafi verið gripið samstundis og málið kom upp. Maðurinn megi því ekki nálgast vitnið eða fjölskyldu hans. Rjúfi maðurinn nálgunarbannið liggi sérstök refsing við því. „Það er svo sem ekkert hægt að segja til um hver hún verður fyrr en á það reynir, en það á ekki að taka létt á slíku," segir Ólafur Helgi.

Aðspurður segir Ólafur að lögreglan sé ekki nægjanlega vel mönnuð til þess að vakta heimili vitnisins komi til þess að brotamaðurinn rjúfi nálgunarbannið. „Til þess þyrftum við miklu meiri mannskap en við höfum," segir Ólafur Helgi. „Það er í sjálfu sér ekki hægt að segja fyrirfram hvað gerist en það er náttúrlega ljóst að ef maðurinn brýtur þetta nálgunarbann að þá verður það litið mjög alvarlegum augum," segir Ólafur Helgi.




Tengdar fréttir

Hótaði að meiða vitni í dómsmáli

Karlmaður var handtekinn í Þorlákshöfn á fimmtudaginn þar sem hann var að leita að aðila sem hafði borið vitni í héraðsdómi í máli sem sá handtekni hafði verið dæmdur í daginn áður. Maðurinn hafði í hótunum um að vinna vitninu mein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×