Innlent

Hótaði að meiða vitni í dómsmáli

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Karlmaður var handtekinn í Þorlákshöfn á fimmtudaginn þar sem hann var að leita að aðila sem hafði borið vitni í héraðsdómi í máli sem sá handtekni hafði verið dæmdur í daginn áður. Maðurinn hafði í hótunum um að vinna vitninu mein.

Maðurinn var á bifreið þrátt fyrir að vera sviptur ökuréttindum og talinn vera undir áhrifum fíkniefna. Eftir að hafa dvalið í fangageymslu í nokkurn tíma var maðurinn yfirheyrður og í beinu framhaldi leiddur fyrir dómara þar sem lögreglustjórinn á Selfossi hafði gert kröfu um að maðurinn yrði látinn sæta nálgunarbanni gagnvart vitninu. Dómari féllst á þá kröfu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu mun ákæra síðar verða gefin út á hendur manninum vegna þessara þriggja brota en það verður ekki fyrr niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×