Innlent

Áhyggjufullir svínabændur

Svínabændur segja að nær sé að kalla flensuna Mexíkóflensu.
Svínabændur segja að nær sé að kalla flensuna Mexíkóflensu. MYND/Einar

Svínabændur hafa áhyggjur af því að ef svínaflensa greinist hér á landi þá berist hún frá mönnum í svín. Svínabúin eru þó nokkuð lokuð sem getur hjálpað þeim að koma í veg fyrir að svo fari.

Yfirdýralæknir sendi í morgun öllum svínabændum bréf þar sem þeir eru hvattir til að fara yfir smitvarnir hjá sér ef ske kynni að svínaflensan kæmi hingað til lands.

Langstærstur hluti af því svínakjöti sem selt er hér á landi er íslenskt. Svínaflensa hefur aldrei greinst í svínum hér á landi en skimað hefur verið henni. Svínabændur hafa nokkrar áhyggur af því að ef flensan berst í mönnum hingað til lands þá berist hún frá þeim í svín.

Hörður Harðarson, formaður félag svínabænda, segir Íslendinga þó vel í stakk búna að tryggja að smit komist ekki svínin. Búin séu frekar lokuð en umgengni um þau sé takmörkuð. Þá fylgi bændur ákveðnum heilbrigðiskröfum auk þess sem þeir lúta ströngu eftirliti opinberra aðila.

Hörður segir það í raun rangnefni að kalla flensuna svínaflensu. Nær væri að kenna hana við landið þar sem hún greindist fyrst og kalla hana Mexíkóflensu.

Hörður segir flensuna enn ekki hafa haft áhrif á sölu á svínakjöti. Töluvert sé þó um það að fólk hafi samband við svínabændur til að kanna hvort að í lagi sé að borða kjötið og leggur hann áherslu á að svo sé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×