Innlent

Árni vegur ómaklega að flokkssystkinum sínum í Árborg

Ólafur Hafsteinn Jónsson, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðismanna í Árborg.
Ólafur Hafsteinn Jónsson, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðismanna í Árborg.

Ólafur Hafsteinn Jónsson, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðismanna í Árborg, segir fásinnu að sjálfstæðismenn í Árborg hafi tekið þátt í atlögu gegn Árna Johnsen þar sem kjósendur hafi verið hvattir til að strika yfir nafn Árna í kosningunum síðastliðinn laugardag. Hann segir Árna vega ómaklega að flokkssystkinum sínum. Þetta kemur á fréttavefnum Sunnlending.

Árni fullyrðir í viðtali við Fréttir í Vestmannaeyjum að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins af Árborgarsvæðinu hafi hvatt kjósendur til að strika yfir nafn sitt í kosningunum. Kjartan Ólafsson, fyrrum þingmaður flokksins, segir Árna fara með fleipur.

„Ég veit að það var sett af stað batterí á Árborgarsvæðinu mér til höfuðs, bæði af ungliðum og eldri flokksmönnum. Þau hringdu út, sögðu fólki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en strika mig út," segir Árni í Fréttum.

Ólafur Hafsteinn segir Árna vega mjög ómaklega að sjálfstæðismönnum í Árborg með ásökunum sínum. „Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir mig, sem formann fulltrúaráðs Árborgar, hvort maður á að leggja heiður sinn að veði til þess að vinna fyrir slíka menn," segir Ólafur í samtali við Sunnlending.

Frétt Sunnlendings um málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×