Innlent

Rekstur RÚV á áætlun

Páll Magnússon, útvarpsstjóri.
Páll Magnússon, útvarpsstjóri. Mynd/GVA
Ríkisútvarpið tapaði 365 milljónum króna á sex mánaða tímabili frá byrjun september til loka febrúarmánaðar síðastliðins. Þetta kemur fram í árshlutareikningi sem birtur var í dag. Aukinn fjármagnskostnaður skýrir tapið segir útvarpsstjóri. Hann segir rekstur RÚV vera á áætlun.

Niðurstöðurnar samsvara því að Ríkisútvarpið hafi tapað að meðaltali tveimur milljónum króna á hverjum degi frá byrjun september á síðasta ári til loka febrúarmánaðar síðastliðins.

Þá kemur fram í árshlutareikningi að bókfært eigið fé í lok reikningsársins hafi verið neikvætt um 336 milljónir króna.

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, segir tapið skýrast fyrst og fremst af auknum fjármagnskostnaði.

„Skýringin á þessu tapi liggur svo gott sem alfarið í fjármagnskostnaði sem jókst langt umfram áætlanir vegna verðbólgunnar og þróunar í genginu eins og flest fyrirtæki á Íslandi hafa verið að ganga í gegnum. Reksturinn sjálfur er hins vegar nákvæmlega á áætlun," segir Páll.

Tíu helstu stjórnendur Ríkisútvarpsins fengu rúmlega 50 milljónir króna í laun og þóknanir á tímabilinu en þar af fékk útvarpsstjóri rúmar níu milljónir. Þetta jafngildir því að stjórnendur fái að meðaltali um 780 þúsund krónu í laun á mánuði og útvarpsstjóri um eina og hálfa milljón.

Til samanburðar má nefna að mánaðarlaun ráðherra eru 855 þúsund krónur.

Alls greiddi ríkisútvarpið um 817 milljónir króna í laun og launatengd gjöld á tímabilinu til rúmlega 300 starfsmanna.

Laun stjórnenda og starfsmanna voru lækkuð um síðustu áramót og Páll gerir ekki ráð fyrir frekari launalækkunum.

„Þá var farið hér inn og allir starfsmenn sem eru með hærri heildarlaun enn 300 þúsund tóku á sig launaskerðingu sem var stighækkandi eftir því sem launin voru hærri," segir Páll.




Tengdar fréttir

RUV tapar 60 milljónum á mánuði

Tap RUV ohf. nam rúmlega 365 milljónum kr. á tímabilinu frá 1. september í fyrra og fram til loka febrúar í ár samkvæmt árshlutareikningi félagsins. Þetta samsvarar því að RUV hafi tapað rúmum 60 milljónum kr. á hverjum mánuði tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×