Innlent

Enginn smitaður af svínaflensu á Íslandi

Svínaflensan virðist vera mun grimmari í Mexíkó en öðrum löndum. Um tíma í gær var talið að barn í Texas hefði látist úr henni. Barnið reyndist hins vegar hafa komið þangað frá fyrrnefnda landinu, þar sem allmargir hafa látist af völdum flensunnar.
Svínaflensan virðist vera mun grimmari í Mexíkó en öðrum löndum. Um tíma í gær var talið að barn í Texas hefði látist úr henni. Barnið reyndist hins vegar hafa komið þangað frá fyrrnefnda landinu, þar sem allmargir hafa látist af völdum flensunnar.

 Sýni sem tekin hafa verið úr fimm einstaklingum vegna gruns um að þeir gætu verið með svínaflensu reyndust neikvæð þegar niðurstöður lágu fyrir í gær, að sögn Haraldar Briem sóttvarnalæknis.

Síðdegis í gær voru engar vísbendingar um að flensan væri komin hingað. Enginn hafði leitað til inflúensumóttökunnar, sem komið hefur verið upp í Leifsstöð, um miðjan dag í gær, að sögn sóttvarnalæknis. Þá höfðu engar fregnir borist af því að fólk hefði leitað til lækna í gærdag vegna flensueinkenna.

Heilbrigðisyfirvöld og almannavarnir Ríkislögreglustjóra starfa nú samkvæmt hættustigi vegna svínaflensunnar sem nú herjar víða um lönd.

Í gær var komið upp inflúensu-móttöku í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli sem er mönnuð heilbrigðisstarfsmönnum frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Ferðamenn geta leitað þangað hafi þeir inflúensulík einkenni.

„Það er mjög mikilvægt að móttakan sé til staðar og að fólk viti af henni,“ segir sóttvarnalæknir.

Ekki verður gripið til innkomuskimunar í flugstöðinni, þar sem fullvíst er talið að slík aðgerð þjóni engum tilgangi.

Upplýsingum hefur verið miðlað til heilbrigðisþjónustu og viðbragðsaðila. Heilbrigðisstarfsmenn hafa verið hvattir til þess að senda sýni frá sjúklingum með inflúensulík einkenni til greiningar og hefur leiðbeiningum um notkun veirulyfja verið dreift.

Stöðug vöktun er vegna flensunnar.

Óhjákvæmilegt er að margir farþegar sem koma til landsins frá Bandaríkjunum og Mexíkó muni leita læknis vegna ýmissa einkenna. Grunsamleg tilfelli byggjast á skoðun læknis og það er síðan staðfest með því að sýna fram á sýkingu á rannsóknarstofu. Mikið ósamræmi er í sjúkdómsmynd svínainflúensunnar í Mexíkó miðað við önnur ríki, að sögn sóttvarnalæknis.

jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×