Innlent

Dauðaslysum barna hefur fækkað um helming á 20 árum

Herdís Storgaard, forstöðumaður Forvarnahússins.
Herdís Storgaard, forstöðumaður Forvarnahússins.

Dauðaslysum og slysum á börnum hefur fækkað um helming á tæpum tveimur áratugum. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu sem gefin var út árið 2007 af heilbrigðisráðuneytinu, en skýrslan var unnin til að skoða stöðu á markmiðum heilbrigðisáætlunar til ársins 2010.

„Árið 1991 hófst skipulagt starf í slysavörnum barna á Íslandi," segir í tilkynningu frá Forvarnahúsinu. „Veruleg fækkun hefur orðið á barnaslysum hér á landi síðan þá og má það fyrst og fremst þakka öflugu slysavarnastarfi. Ýmsir aðilar hafa komið að því forvarnarstarfi í gegnum tíðina."

  • Árið 1991 var fjöldi slysa á börnum á aldrinum 0-14 ára tæp 22.000
  • Í dag eru þau tæplega 10.000.
  • Dauðaslysum hefur einnig fækkað um rúman helming og má einkum rekja það til fækkunnar á drukknunum.



Þá segir að nýjar áherslur í fræðslu til foreldra ungra barna hér á landi hafi vakið athygli í Evrópu en þær eiga sér ekki hliðstæður í öðrum löndum.

Þær felast í eftirfarandi atriðum:

  • Öllum foreldrum á landinu er nú boðið á ókeypis 90 mínútna námskeið í Forvarnahúsinu skömmu eftir að barnið er fætt. Þar er lögð áhersla á slysavarnir í heimahúsum en 60% ungra barna slasa sig inni á heimilum. Foreldrar eru einnig fræddir um öryggi barna í bílum en mikið er um ranga notkun á barnabílstólum.
  • Fræðsla um slysavarnir á meðgöngu með sérstaka áherslu á val á réttum búnaði fyrir barnið og réttri notkun hans.
  • Skipulögð og samræmd fræðsla til foreldra barna í ung- og smábarnavernd á öllu landinu.
  • Samræmt fræðsluefni/bæklingar fyrir foreldra. Efnið má nálgast á heimasíðu Miðstöðvar heilsuverndar barna www.heilsugaeslan.is
  • Fræðsluefni (ítarefni) um slysavarnir barna fyrir fagfólk í ung- og smábarnavernd til að efla fræðslu til foreldra og tryggja samræmda upplýsingagjöf.



„Tilgangur með þessu nýja fræðsluefni er að efla slysavarnir barna og þar með að fækka slysum enn frekar. Með sameiginlegu átaki allra aðila sem koma að umönnun barna ætti það að takast," segir að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×