Innlent

Vilja að strætó verði nemendum að kostnaðarlausu

Stúdentaráð vill að jafnræðis sé gætt á meðal námsmanna þegar kemur að strætóferðum.
Stúdentaráð vill að jafnræðis sé gætt á meðal námsmanna þegar kemur að strætóferðum.
Stúdentaráð Háskóla Íslands hvetur sveitarfélög landsins til að bjóða námsmönnum öllum frítt í strætó. Markmið þess að bjóða námsmönnum gjaldfrjálsar strætóferðir er minni umferð einkabíla í borginni, aukin áhersla á notkun almenningssamgangna, umhverfisvernd og aukinn sparnaður fyrir stúdenta.

Í ályktun frá Stúdentaráði segist ráðið telja það óeðlilegt að stúdentum sé mismunað vegna lögheimilis eða þjóðaruppruna. Mikil óánægja hafi skapast meðal stúdenta vegna þeirrar mismununar sem nú eigi sér stað. Stúdentaráð hvetji því borgaryfirvöld og stjórn Strætó bs. til að veita öllum stúdentum sömu fríðindi, óháð því hvert lögheimili þeirra sé eða heimaland. Námsmenn sem búi á höfuðborgarsvæðinu skuli allir fá frítt í strætó - jafnvel þó lögheimili þeirra sé á landsbyggðinni eða erlendri grundu.

„Stúdentaráð hvetur því sveitarfélög landsins til að styðja við bakið á stúdentum og greiða strætókort fyrir þá sem dvelja veturlangt á höfuðborgarsvæðinu. Stúdentar búsettir á landsbyggðinni hafa tíðum fært lögheimili sitt til Reykjavíkur í þeim tilgangi einum að fá frítt strætókort. Það ætti að vera kappsmál hvers sveitarfélags að halda utan um íbúa sína svo þeir skeri ekki viljandi á heimataugina. Stúdentaráð Háskóla Íslands telur því sjálfsagt að sveitarfélögin í landinu komi til móts við stúdenta og styðji þá með ofangreindum hætti á erfiðum tímum," segir í tilkynningu frá Stúdentaráði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×