Erlent

ESB vill Íslendinga á undan Balkanskagaríkjunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Carl Bildt er utanríkisráðherra Svíþjóðar og sagður ákafur stuðningsmaður þess að Íslendingar sæki um.
Carl Bildt er utanríkisráðherra Svíþjóðar og sagður ákafur stuðningsmaður þess að Íslendingar sæki um.
Mælt verður með því að Ísland fari fram fyrir Balkanskagalöndin í röð umsækjenda um aðild að Evrópusambandinu þegar utanríkisráðherrafundur sambandsins mun fjalla um umsókn Íslendinga á mánudag í næstu viku.

Þá mun ráðherrafundur utanríkisráðherra Evrópusambandsins senda framkvæmdastjórn Evrópusambandsins yfirlýsingu með ósk um að metið verði að hve miklu leyti íslensk lög samræmast löggjöf Evrópusambandsins, fullyrðir Bloomberg fréttaveitan, sem segist vera með uppkast að yfirlýsingunni undir höndum.

Bloomberg segir að Evrópusambandið hafi ekki stækkað síðan að Búlgaría og Rúmenía voru tekin inn árið 2007. Þýskaland og Frakkland séu mótfallinn því að taka inn lítt þróuð ríki í suðaustur Evrópu, einkum Tyrkland. Öðruvísi sé farið með Ísland enda hafi verg framleiðsla hér verið um 37 þúsund bandaríkjadalir á hvern íbúa árið 2007, meiri en í nokkru öðru ríki innan Evrópusambandsins, að undanskildu Lúxemburg.

Bloomberg segir að Svíar leggi á það áherslu að aðildarviðræður við Íslendinga geti hafist í janúar 2010. Orðalag yfirlýsingarinnar frá utanríkisráðherrunum geti hins vegar breyst því hátt settir embættismenn innan ESB deili um það hvernig hægt sé að útskýra hraðmeðferð á umsókn Íslendinga fyrir ríkjunum á Balkanskaga, sem hafa beðið mun lengur en Íslendingar eftir inngöngu. Makedónía sótti um aðild árið 2005 og er enn að bíða þess að aðildarviðræður geti hafist. Þá sótti Svartfjallaland um í desember og Albanía sótti um í apríl.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×