Innlent

Fær skrifstofu til að flokka skjöl sín

Eiríkur Guðnason Flokkar nú og gengur frá skjölum frá fimmtán ára ferli sem seðlabankastjóri. Myndin er frá árinu 2005.Fréttablaðið/Vilhelm
Eiríkur Guðnason Flokkar nú og gengur frá skjölum frá fimmtán ára ferli sem seðlabankastjóri. Myndin er frá árinu 2005.Fréttablaðið/Vilhelm

Eiríkur Guðnason, sem lét af störfum sem seðlabankastjóri í lok febrúar, er nú snúinn aftur í bankann.

Að þessu sinni verður Eiríkur með starfsaðstöðu í skjalasafni Seðlabankans í Einholti þar sem hann hefur fengið skrifstofu til afnota. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum hyggst Eiríkur flokka skjöl frá bankastjóraferli sínum í bankanum. Eiríkur þekkir sögu Seðlabankans vel enda hóf hann störf þar fyrir fjórum áratugum og var bankastjóri í fimmtán ár, eða frá 1994 til ársins í ár eins og áður segir.

Eiríkur Guðnason fær aðstöðuna í Einholti aðeins tímabundið á meðan hann gengur frá og flokkar eigin skjöl. Í svari Seðlabankans kemur fram að bankastjórinn fyrrverandi vinni þetta starf í samráði við bankann og án þess að fá greidda fyrir það sérstaka þóknun.

Eiríkur lét af störfum í Seðlabankanum gegn eigin vilja eins og fram hefur komið. Í febrúar sagði hann meðal annars í bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að yfirlýsing hennar um skipulagsbreytingar í bankanum væri „furðuleg“ og miklum tíma vikurnar þar á undan hefði verið „eytt í óþarfa“ í stað þess að sinna brýnum verkefnum. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×