Innlent

Meirihlutinn leyfir umdeilt hús á sjávarlóð

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Miðskógar 8. Eftir áralangan ágreining um heimild til byggingar einbýlishúss á þessari sjávarlóð framan við íbúðarhús fyrrverandi forseta bæjarstjórnar hefur leyfið nú verið veitt.
Miðskógar 8. Eftir áralangan ágreining um heimild til byggingar einbýlishúss á þessari sjávarlóð framan við íbúðarhús fyrrverandi forseta bæjarstjórnar hefur leyfið nú verið veitt. Vísir/Anton
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og óháðra í skipulags- og byggingarnefnd Álftaness hefur samþykkt byggingarleyfi á umdeildri sjávarlóð á Mið­skógum 8.

Mikill styr hefur staðið um byggingu húss á umræddri lóð. Meirihluti Á-listans, sem sprakk í fyrravor, heimilaði ekki að húsið yrði reist og afmáði hana sem byggingarlóð með breyttu skipulagi. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála felldi nýja skipulagið hins vegar úr gildi og einnig ákvörðun bæjarstjórnar Álftaness um að neita lóðar­eigendunum um byggingarleyfi.

Á fundi skipulags- og byggingar­nefndar Álftaness á mánudag lagði fulltrúi Á-listans til að byggingarleyfis­umsókninni yrði aftur hafnað „með tilvísun í ákvæði um hverfisvernd í aðalskipulagi Álftaness 2005-2024 og samþykkt deiliskipulag fyrir Vestur-Skógtjarnarsvæðið, enda verði samið um sanngjarnar bætur fyrir réttmætar væntingar um að þarna yrði leyft að byggja.“ Þá sagði fulltrúi Á-listans hús á bakka Skógtjarnar stríða gegn samþykktu aðalskipulagi og ákvæðum um hverfisvernd.

Meirihlutinn vísaði hins vegar í lögfræðiálit sem aflað var og samþykkti umsóknina þar sem hún uppfyllti ákvæði byggingarreglugerðar. Ítrekað var að samþykktin næði til framkvæmda á lóðinni ofan núverandi sjóvarnargarðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×