Innlent

Segja mannréttindi sín brotin

Kvartar til umboðsmanns. Jóhann Ágúst Hansen er í fararbroddi hópsins. fréttablaðið/gva
Kvartar til umboðsmanns. Jóhann Ágúst Hansen er í fararbroddi hópsins. fréttablaðið/gva

26 manna hópur, með Jóhann Ágúst Hansen viðskiptafræðing í fararbroddi, hefur kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna meints brots Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra á 2. gr. stjórnar­skrárinnar. Í henni er fjallað um þrískiptingu valds.

Telur hópurinn að Steingrímur hafi gerst brotlegur við greinina þegar hann sem fjármálaráðherra og handhafi framkvæmdarvalds gerði Icesave-samningana og síðar sem alþingismaður og handhafi löggjafarvalds veitti þeim brautargengi á Alþingi með atkvæði sínu. Er það mat hópsins að þetta stangist ekki einasta á við stjórnarskrá heldur gangi líka gegn mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu. Í kvörtuninni segist hópurinn telja háttsemi Steingríms brot á mannréttindum sínum.

Meðal þeirra sem standa að kvörtuninni eru þingmenn Hreyfingarinnar: Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir en áðurnefndur Jóhann Ágúst er eiginmaður Margrétar.

Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, segir að þrátt fyrir aðra greinina sé beinlínis gert ráð fyrir því í stjórnarskránni að ráðherrar séu jafnframt þingmenn. Í 51. grein segi að ráðherrar eigi sæti á Alþingi en hafi aðeins atkvæðisrétt ef þeir séu jafnframt kjörnir þingmenn. Umkvörtunin vegna tilviks Steingríms eigi því varla stoð í stjórnarskránni. Það sé svo annað mál hvort það sé heppilegt fyrirkomulag eða ekki að þingmenn séu ráðherrar.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×