Innlent

Óskastaðan er að fjölga fólki

Vegna fjárskorts er ekki hægt að fjölga starfsmönnum Vinnumálastofnunar í takt við óskir þeirra sem þar starfa.fréttablaðið/anton
Vegna fjárskorts er ekki hægt að fjölga starfsmönnum Vinnumálastofnunar í takt við óskir þeirra sem þar starfa.fréttablaðið/anton

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, segir ekki mögulegt að fjölga starfsfólki Vinnumálastofnunar í takt við óskir þeirra sem þar starfi. Til þess sé ekki til fjármagn.

„Það er hins vegar óskastaðan og við vinnum að því með öllum ráðum að skapa það svigrúm. Við verðum hins vegar að starfa innan ramma fjárlaga og hugmyndirnar sem við vinnum með þessa dagana er að veita hluta af bótagreiðslum í virkni- og námsúrræði. Við berum sem samfélag ábyrgð á því að viðhalda virkni þessa fólks og nýta krafta þess og teljum það skyldu okkar. Að óbreyttu endum við í ógöngum.“

Árni Páll segir að á sama tíma og lítið svigrúm sé til aðgerða sé verið að stokka spilin upp á nýtt. „Sérstaklega erum við að vinna að hugmyndum sem snerta yngsta hópinn og þar þurfum við án efa fjölþætt og flókin úrræði. Við erum með áætlanir um að nýta allt nærsamfélagið í þetta verkefni. Við þurfum að semja við stéttarfélögin um að styðja sína félaga og bjóða fólki í viðkomandi starfsgrein úrræði á þeirra vegum. Við þurfum að fá kirkjuna til leiks og Rauða krossinn svo dæmi sé tekið. Það er gríðarlegt verkefni fram undan. Önnur lönd búa svo vel að geta veitt miklum fjármunum til að leysa þennan vanda. Það höfum við ekki. Í staðinn mætum við vandanum með hugmyndaauðgi.“ - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×