Innlent

Byr-börnin fengu 180 milljónir alls

Helga Arnardóttir skrifar

Lánin sem 10 börn fengu frá Glitni til kaupa á hlut í stofnfjárútboði BYRS fyrir tveimur árum námu 180 milljónum króna. Börnin fengu arðgreiðslur upp á 86 milljónir króna sem runnu beint til niðurgreiðslu lánanna sem talin eru ólögmæt.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka voru 10 lán veitt til barna undir lögaldri í stofnfjárútboði Byrs í desember 2007. Yngsta barnið var eins árs og það elsta sautján ára.

Tvo lán voru tekin í erlendri mynt en átta í íslenskum krónum. Lægsta lánið var 2 milljónir en það hæsta 24 milljónir. Börnin fengu alls 180 milljónir að láni og 86 milljónir í arð frá Byr í fyrra.

Arðgreiðslurnar voru 44 prósent af hverjum hlut. Þær fóru aldrei í vasa barnanna heldur runnu þær beint til Glitnis til niðurgreiðslu lánanna.

Þau svör fengust frá Íslandsbanka að ógildum löggerningi af þessu tagi verður snúið við eins og samningur hafi aldrei verið gerður.

Íslandsbanki sér því um að skila stofnfjárbréfunum til Byrs fyrir hönd barnanna. Það er því búið að greiða upp í lánin hjá Glitni sem nemur arðgreiðslunni frá því í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×