Íslenski boltinn

Steinþór: Nú fer ég beint upp í skóla að læra

Sólmundur Hólm skrifar
Steinþór Freyr Þorsteinsson.
Steinþór Freyr Þorsteinsson.

Steinþór Freyr Þorsteinsson og félagar í Stjörnunni fóru illa með Þróttara í Laugardalnum í kvöld og unnu 6-0 stórsigur. Stjarnan hefur fullt hús eftir fyrstu tvær umferðir Pepsi-deildarinnar.

„Ég segi ekki að þetta hafi verið auðvelt, en í lokin var þetta orðið auðvelt," sagði kampakátur Steinþór Freyr Þorsteinsson að loknum leik Þróttar og Stjörnunnar.

Steinþór átti frábæran leik fyrir Stjörnuna og var maður leiksins. Skoraði eitt mark og lagði upp annað. Sjálfur var hann þó hógværðin uppmáluð í lok leiks.

„Já ég átti sæmilegan leik en ég er frekar þreyttur. Ég var í prófi í dag og annað á morgun," sagði Steinþór sem að nemur verkfræði við Háskóla Íslands. Því er óhætt að segja að leiknum verði ekki fagnað með pompi og pragt þessum kraftmikla leikmanni.

„Nei nei. Nú er það bara beint upp í skóla að læra."

Steinþór kom til Stjörnunnar í haust frá uppeldisfélagi sínu Breiðablik. Hann segist ánægður á nýjum vettvangi.

„Það er gott í garðabænum. Maður fær að spila og þetta er flott lið. Við erum líka að ná góðum úrslitum og svona," sagði Steinþór.

Stjarnan er á toppnum eftir fyrstu tvær umferðirnar. Er ekki stefnan að halda sér þar? „Við reynum að halda þessu. Förum í hvern leik til að vinna en megum ekki ofmetnast," sagði Steinþór áður en hann skokkaði inn úr kuldanum til að fagna með félögunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×