Innlent

Evrópska lánið sterk skilaboð um Ísland

Lánveiting Evrópska fjárfestingarbankans til Orkuveitu Reykjavíkur er gríðarlega sterkt merki út í hinn alþjóðlega fjármálaheim, að mati forystumanna orkufyrirtækjanna, og jafnvel upphafið að endurreisn íslensks efnahagslífs.

Evrópski fjárfestingarbankinn gaf fyrir helgi grænt ljós á þrjátíu milljarða króna lánveitingu til Orkuveitu Reykjavíkur, sem gefur henni færi að ráðast í stækkun Hellisheiðarvirkjunar vegna raforkusölu til fyrsta áfanga Helguvíkurálvers.

HS Orku er einnig ætlað að útvega orku til álversins en þar segir forstjórinn, Júlíus Jónsson, að fyrst þurfi að styrkja eiginfjárstöðu félagsins, og vonast til að samningum um það ljúki í þessari viku. Síðan þurfi HS Orka að útvega um fimmtán milljarða króna með blöndu af nýju hlutafé og lánsfé, til að fjármagna stækkun Reykjanesvirkjunar, og býst Júlíus við að það skýrist síðar í mánuðinum hvaða stefnu það mál taki. Hann segir fréttirnar af evrópska láninu til Orkuveitunnar í þessu sambandi hafa jákvæð áhrif fyrir allt Ísland.

Í sama streng tekur Stefán Pétursson, fjármálastjóri Landsvirkjunar, sem leitar lánsfjár til Búðarhálsvirkjunar. Stefán segir tíðindin gríðarlega sterk, - ekki bara fyrir Orkuveituna, - heldur allt þjóðarbúið, og Evrópski fjárfestingarbankinn sendi mjög sterk merki út í hinn alþjóðalega fjármálaheim.

Stjórnarformaður Orkuveitunnar, Guðlaugur Sverrisson, vonast einnig til að nú hafi orðið þáttaskil, - Ísland hafi á ný komist á kortið hjá bankastofnunum heims. Evrópski fjárfestingarbankinn sé mjög leiðandi banki um ástand mála í ríkjum sem hann láni til og vonast Guðlaugur til að þetta muni hjálpa öllum öðrum atvinnuvegum að komast af stað.

"Allavega erum við hjá Orkuveitunni full bjartsýni um að þetta sé upphafið að uppstiginu," segir Guðlaugur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×