Erlent

Biden segir Afganistan ógn við hinn vestræna heim

Joe Biden.
Joe Biden.

Varaforseti Bandaríkjanna segir að síversnandi ástandið í Afganistan sé ógn við allan hinn vestræna heim. Joe Biden sat í dag fund í höfuðstöðvum NATO í Brussel þar sem hann hvatti aðildarþjóðirnar til þess að hjálpa Bandaríkjamönnum að koma böndum á Talibana í Afganistan.

Barack Obama hefur kynnt áætlanir sínar um að fjölga verulega í bandaríska herliðinu í Afganistan jafnframt því sem hermönnum verði fækkað í Írak.

Talibanar hafa verið að sækja í sig veðrið undanfarin misseri. Er nú svo komið að gæslulið NATO og stjórnarher Afganistans ráða varla nema stærstu borgum. Talibanar ráða ríkjum úti á landsbyggðinni. Og það hefur sýnt sig að jafnvel í borgunum eru menn ekki öryggir fyrir árásum þeirra.

Bandaríkjamenn eru ósáttir við að þótt mörg NATO ríki hafi sent hermenn til Afganistans eru þeir jafnan sendir til rólegustu héraðanna. Bardagar við Talibana hvíla mestmegnis á herðum bandarískra, breskra, kanadiskra og danskra hermanna.

Biden sagði á fundinum í Brussel í dag að versnandi ástand í Afganistan sé ekki aðeins ógn við öryggi Bandaríkjanna heldur allra aðildarríkja NATO. Hann sagði að Obama forseti vildi eiga samráð við aðildarríkin um hertar aðgerðir í Afganistan og að ætlast væri til þess að menn stæðu þá fyllilega við skuldbindingar sínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×