Innlent

Vissu ekki að samræði væri óeðlilegt

Sorg Heyrnarlaus og heyrnarskert börn eru í töluverðri áhættu fyrir kynferðislegri misnotkun.   nordicphotos/getty
Sorg Heyrnarlaus og heyrnarskert börn eru í töluverðri áhættu fyrir kynferðislegri misnotkun. nordicphotos/getty

Börn sem námu við Heyrnleysingjaskólann og sættu þar kynferðislegu ofbeldi höfðu á þeim tíma ekki skilning á því sem var að gerast og áttuðu sig ekki á hvort eðlilegt væri eða ekki að börn hefðu samræði eða önnur kynferðismök.

Þetta kemur fram í skýrslu vistheimilanefndar forsætisráðherra.

Er vitnað til orða sumra viðmælenda nefndarinnar um að þeir hafi ekki beinlínis verið þvingaðir heldur tekið þátt í kynferðislegum athöfnum sem þeir hafi haft takmarkaðan skilning á. Í sumum tilvikum hafi þetta haft þau áhrif að fólkið hafi verið ringlað gagnvart kynferði sínu og ekki áttað sig á kynhneigð sinni og því hverjar forsendur fyrir kynlífi væru fyrr en á efri unglingsárum.

Átján þeirra sem nefndin ræddi við greindu frá því að hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, kynferðislegri áreitni eða hafa orðið vitni að slíku á námsárunum við skólann. Var það ýmist framið af öðrum nemendum, tilteknum kennurum eða utanaðkomandi einstaklingi.

Í skýrslunni er sagt frá könnun sem Rannsóknir og greining gerðu meðal heyrnarlausra árið 2004.

Niðurstöður hennar sýna, svo ekki verður um villst, að heyrnar­laus og heyrnarskert börn eru í töluverðri áhættu fyrir kynferðis­legri misnotkun. Eru þær í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna sem benda einnig til þess að heyrnarlausir geti verið í sérstakri áhættu í skólum og á heimavistum.

Nýleg norsk könnun gefur til kynna að misnotkun heyrnarlausra hafi verið mun alvarlegri en þeirra sem voru heyrandi og að fáir þeirra heyrnarlausu hafi sagt frá misnotkuninni. Einnig kom í ljós að í næstum helmingi tilvika hefði gerandinn einnig verið heyrnarlaus og að um helmingur tilvika hefði átt sér stað í sérskóla fyrir heyrnarlausa.

bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×