Enski boltinn

Gallagher: Webb gerði mistök og veit af því

Howard Webb
Howard Webb Nordic Photos/Getty Images

Íslandsvinurinn og fyrrum úrvalsdeildardómarinn Dermot Gallagher segist hafa talað við kollega sinn Howard Webb eftir leik Manchester United og Tottenham um helgina þar sem umdeild ákvörðun Webb hafði nokkur áhrif á leikinn.

Daily Mail hefur eftir Gallagher að Howard hafi gert mistök í leiknum þegar hann dæmdi víti á Tottenham í stöðunni 0-2, en eftir að United skoraði úr spyrnunni opnaðist fyrir allar flóðgáttir og meistararnir unnu að lokum 5-2 sigur.

"Ég talaði við Howard og hann veit að hann gerði mistök. Honum sýndist markvörðurinn ekki hafa náð til boltans og hélt að Carrick hefði spyrnt boltanum til hliðar og því næst verið felldur af markverðinum," sagði Gallagher.

Hann furðar sig á látunum í kring um ákvörðun Webb í leiknum - hún hafi alls ekki verið auðveld.

"Að mínu mati var þetta ekki auðveld ákvörðun eins og margir vilja meina, en hún var eingu að síður röng. Svona getur komið fyrir hvern sem er og það er mikilvægt að halda áfram. Allir gera mistök," sagði Gallagher og blæs á að Howard verði í kjölfarið tekinn af bikarúrslitaleiknum sem hann á að dæma í sumar.

"Það þýðir ekkert að refsa honum því það hentar félögunum ekki heldur af því leikurinn er búinn. Hann mun ekki missa úrslitaleikinn í enska bikarnum. Þetta var ein ákvörðun á ferli hans og fólk verður að sætta sig við það að allir gera mistök," sagði Gallagher.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×