Íslenski boltinn

Hetja Stjörnumanna í kvöld: Ég var að deyja úr stressi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumenn fögnuðu frábærum sigri í kvöld.
Stjörnumenn fögnuðu frábærum sigri í kvöld. Mynd/Valli

Davíð Guðjónsson, sextán ára strákur, kom inn í mark Stjörnunnar eftir tíu mínútur, stóð sig eins og hetja og átti mikinn þátt í 2-1 sigri liðsins á Fylki. Davíð varði nokkrum sinnum mjög vel og greip hvað eftir annað vel inn í leikinn.

„Ég er mjög ángæður með þetta en þetta var mjög erfitt. Ég var að deyja úr stressi en ég reyndi bara að hugsa um leikinn og einbeita mér að honum," sagði Davíð og bætti við að stemmningin innan liðsins hafi hjálpað mikið. „Við stöndum saman eins og lið," sagði Davíð sem var að koma inn á í sínum fyrsta meistaraflokksleik.

„Ég er búinn að æfa með þeim í mánuð og æfði líka aðeins með þeim fyrir tímabilið," sagði Davíð sem var þó ekki treyst til að spila leikinn þar sem Stjörnumenn leigðu Kjartan Ólafsson frá Víkingi.

Kjartan fékk hinsvegar rautt spjald eftir aðeins níu mínútur og það var því stutt og dýrt gaman fyrir Stjörnumenn að fá hann í Garðabæinn.

„Ég bjóst að sjálfsögðu ekki við þessu en þetta var frábært," sagði Davíð að lokum um leið og þjálfarinn Bjarni Jóhannsson gengur framhjá og kallar á hann að segja nú ekki eitthvað sem hann geti ekki staðið við.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×