Erlent

Þriðji síðasti breski eftirlifandi fyrri heimsstyrjaldar fallinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Bill Stone, hlaðinn orðum og heiðursmerkjum.
Bill Stone, hlaðinn orðum og heiðursmerkjum. MYND/HMSHOOD.com

Einn þriggja eftirlifandi breskra hermanna sem börðust í fyrri heimsstyrjöldinni lést í gær, 108 ára að aldri.

Bill Stone var fæddur í Devon árið 1900 og voru þau fjórtán systkinin. Hann gekk til liðs við breska sjóherinn 16 ára gamall og var þegar munstraður á orrustubeitiskipið HMS Tiger. Síðar var Stone fluttur yfir á herskipið Hood, flaggskip breska flotans, sem mætti örlögum sínum örskammt undan ströndum Íslands í maí 1941 þegar þýski bryndrekinn Bismarck sprengdi það í tætlur með 1.418 manna áhöfn. Þrír komust af.

Stone var þó ekki á Hood þegar þetta gerðist heldur var hann kominn á HMS Salamander og tók þar meðal annars þátt í að ferja her bandamanna frá Dunkerque í Frakklandi vorið 1940 þar sem þýski herinn hafði króað á fjórða hundrað þúsund hermenn af. Stone annaðist meðal annars hárskurð í sinni herdeild og sagt er að hann hafi eitt sinn snyrt kollinn á bróður franska einræðisherrans Francisco Franco sem hann bjargaði úr flugvélarflaki.

Að Stone gengnum eru tvær stríðshetjur úr fyrri heimsstyrjöldinni eftir í Bretlandi og eru þeir herramenn 110 og 112 ára gamlir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×