Innlent

„Mjög gott samband á milli okkar Steingríms“

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Mynd/Arnþór Birkisson
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, segir samband sitt og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og formanns Vinstri grænna, vera afar gott. Ögmundur kveðst ekki hafa líf ríkisstjórnarinnar í höndum sér. Hann segist einungis vera einn af 63 fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi.

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er fullyrt að ef Ögmundur leggist gegn ríkisábyrgð vegna Icesave samningsins á þingi springi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Mikill titringur mun vera innan VG vegna málsins og þá er samband Ögmundar og formanns flokksins sagt stirt.



Einn af 63 þingmönnum


„Það má setja málin upp með ýmsum hætti. Hver er með líf hvers í höndunum? Ég held að þetta snúist á endanum um hagsæld íslensku þjóðarinnar og hvað er lífvænlegast fyrir hana að gera," segir Ögmundur aðspurður um frétt Fréttablaðsins.

Ráðherrann segist einungis vera einn af 63 þingmönnum. Icesave málið sé málefni þingsins. „Þar eru atkvæði jöfn og mitt atkvæði vegur ekki þyngra en atkvæði annarra."

Sambandið ekki stirt

Ögmundur segir að sér og formanni flokksins hafi blessunarlega tekist að koma í veg fyrir að skoðanamunur þeirra í málinu hafi áhrif á persónulegt samband þeirra.

„Það er mjög gott samband á milli okkar Steingríms Sigfússonar nú sem endranær þó að við séum ekki á einu máli hvað Icesave deiluna varðar," segir Ögmundur. Ekki sé stirt á milli þeirra.



Ríkur vilji í þinginu til að leysa málið


Ráðherrann er vongóður um að ef allir leggist á árarnar náist breið samstaða í málinu. Það sé mjög brýnt fyrir hagsmuni Íslands.

„Ég hef talað fyrir því að niðurstaðan verði 63-0 í því sem við gerum. Við höfum ekki efni á því fara með klofið þing og klofna þjóð inn í eins afdrifaríka skuldbundingar og Icesave samningarnir fela í sér."

Ögmundur telur að það sé ríkur vilji til þess meðal allra stjórnmálaflokka á Alþingi að ná samstöðu um lausn í málinu. „Ég heyri mjög góða tóna úr öllum áttum hvað þetta snertir. Það er ásetningur manna að leysa þetta mál."


Tengdar fréttir

Líf ríkisstjórnarinnar í höndum Ögmundar

Haldi Ögmundur Jónas­son heilbrigðisráðherra fast við andstöðu sína við Icesave-málið er ríkisstjórnarsamstarfi VG og Samfylkingarinnar úr sögunni. Um það eru þingmenn í báðum flokkum sammála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×