Innlent

Stálu sautján leðursófasettum

sófasettin Þannig líta þau út, stolnu sófasettin. Gunnar Hávarðsson sölustjóri situr í einu slíku.
sófasettin Þannig líta þau út, stolnu sófasettin. Gunnar Hávarðsson sölustjóri situr í einu slíku.

Andvirði sautján sófasetta sem stolið var úr gámum við fyrirtæki í Dugguvogi 2 í fyrrinótt og nóttina þar áður nemur rúmlega fjórum milljónum króna. Óvíst var síðdegis í gær hvort þau voru tryggð.

„Við erum hreinlega í sjokki,“ segir Þórarinn Hávarðsson, sölustjóri Patta ehf., sem flutti húsgögnin inn.

Gámarnir sem farið var í, fjórir að tölu, voru læstir með hengilás, en lásarnir voru allir horfnir þegar starfsfólkið mætti til vinnu í fyrradag. Gámarnir voru hálfopnir. Þegar farið var að athuga málið kom í ljós að fimm sófasettum hafði verið stolið. Í fyrrakvöld var sendiferðabíl lagt upp við hurðir gámanna til að hindra frekari þjófnað.

Sú ráðstöfun hafði ekki erindi sem erfiði því í gærmorgun hafði allt að tólf sófasettum til viðbótar verið stolið.

Sófasettin eru öll klædd ljósu leðri, nema eitt sem er úr svörtu leðri. Þau eru framleidd í ítalskri verksmiðju í Kína.

Hafi einhverjir orðið var við mannaferðir við Dugguvog 2 í fyrrinótt og nóttina þar áður eru viðkomandi vinsamlegast beðnir að láta lögregluna vita.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×