Lífið

Brotthvarf Jóhönnu setur strik í reikninginn

Þorsteinn Stephensen hjá Hr. Örlygi segir engan bilbug á þeim að finna þótt Jóhanna Guðrún hafi flogið til Svíþjóðar og frestað sínum tónleikum.
Þorsteinn Stephensen hjá Hr. Örlygi segir engan bilbug á þeim að finna þótt Jóhanna Guðrún hafi flogið til Svíþjóðar og frestað sínum tónleikum.

Aðstandendur stórtónleika Jóhönnu Guðrúnar sendu í gær frá sér tilkynningu þar sem fyrirhuguðum tónleikum Eurovision-stjörnunnar í Laugardalshöll var frestað fram á haust. Tónleikarnir áttu að vera 4. júní en vegna áhuga sænskra aðila urðu söngkonan og umboðsmaður hennar, María Björk, að bregðast skjótt við og var tekin sú ákvörðun að fresta öllu tónleikahaldi. Þorsteinn Stephensen hjá Hr. Örlygi, sem sér um tónleikana, skilur vel ákvörðun Jóhönnu.

„Þær fóru eiginlega út með engum fyrirvara, auðvitað vilja þær hamra járnið á meðan það er heitt, laginu gengur vel og maður verður bara að skilja það,“ segir Þorsteinn og viðurkennir að það hafi verið djörf ákvörðun á sínum tíma að fá Jóhönnu í verkefni af þessari stærðargráðu með svo skömmum fyrirvara. „Við vissum auðvitað að hún yrði mjög upptekin í sumar.“

En þessi ákvörðun setur smá strik í reikninginn því kvöldið eftir hafði Hr. Örlygur boðað til mikillar rokkveislu þar sem margir af fremstu rokksöngvurum landsins troða upp og þenja raddböndin við helstu rokkslagara tónlistarsögunnar. Þorsteinn viðurkennir að þeir hafi þarna ætlað að slá tvær flugur í einu höggi og komast hjá óþarfa kostnaði við uppsetningu á hljóðkerfi og öðru slíku.

„Þetta er auðvitað erfitt en við erum búnir að ná góðu samkomulagi við Laugardalshöllina og helstu kostnaðaraðilana, það er kreppa alls staðar, við verðum bara öll að hjálpast að og láta þetta ganga upp,“ útskýrir Þorsteinn og segir engan bilbug á sér eða öðrum að finna.

„Nei, nei, þetta leggst bara vel í okkur.“- fgg/fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.