Innlent

Barðastrandarfórnalamb: Barnabörnin þora ekki í heimsókn

Andri Ólafsson skrifar

"Barnabörnin þora ekki lengur að koma í heimsókn," segir úrsmiður á áttræðisaldri sem var barinn og rændur á heimili sínu í sumar. Réttað var í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en þar sagði úrsmiðurinn frá því hvernig hann var bundinn á höndum og fótum á meðan ræningjarnir létu greipar sópa á heimili hans.

Tvö rán sem framin voru fyrr á þessu ári vöktu mikinn óhug enda nánast án fordæma hér á landi. Þau áttu það sameiginlegt að brotist var inn á heimili, ráðist á húsráðendur og þeir barðir og bundnir áður en greipar voru látnar sópa um heimilið. Fyrra málið var á Arnarnesi en það síðara á Seltjarnarnesi.

Seltjarnarnesmálið var tekið fyrir í Héraðsdómi í dag. Fjórir eru ákærðir. Tveir fyrir að brjótast inn í hús við Barðaströnd og ráðast á húsráðanda. Einn er ákærður fyrir að aka ræningjunum til og frá vettvangi og sá fjórði er ákærður fyrir skipulagningu ránsins. Sá heitir Axel Karl Gíslason og er með langan feril afbrota á bakinu. Meðal annars fyrir frelsissviptingu og mannrán.

Húsráðandinn lýsti því í dag hvernig annar innbrotsþjófurinn réðst á hann og kýldi í andlitið. Hvernig hann var því næst bundinn á höndum og fótum og hótað að hann yrði úðaður með piparúða ef hann hreyfði sig.

Úrsmiðurinn er á áttræðisaldri og sagðist hafa óttast um líf sítt þar sem hann lá bjargarlaus á gólfinu með hendur bundnar fyrir aftan bak.

Sækjandi spurði hvaða afleiðingar ránið hefði haft. Húsráðandinn svaraði því til að áverkarnir í andlitinu hefðu gróið fljótt, en andlegar afleiðingar væru stærri og meira. Hann finni enn til óöryggistilfinningar á heimili sínu. En það versta er, sagði húsráðandinn, að barnabörnin þora ekki lengur að koma í heimsókn eftir ránið.

Miðað við dóma sem féllu í Arnarnesmálinu svokallaða þá eiga fjórmenningarnir sem ákærðir hafa verið fyrir ránið á Seltjarnarnesi von á tveggja til tveggja og hálfs árs fangelsi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×