Innlent

Eigandinn segir lögreglu hafa sýnt snör viðbrögð

Starfsstúlkan var flutt með sjúkrabíl til skoðunar en ekki er vitað hvort hún sé mikið slösuð.
Starfsstúlkan var flutt með sjúkrabíl til skoðunar en ekki er vitað hvort hún sé mikið slösuð. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Óléttri starfsstúlku skargripaverslunar á Laugavegi var ógnað með sprautunál rétt áður en hún var spörkuð niður í dag. Þjófurinn hljóp á brott með tæplega 400 þúsund króna úr, en náðist skömmu síðar.

Snyrtilegur ungur maður kom inn í verslunina rétt fyrir klukkan fjögur í dag og bað um að fá að skoða tæplega 400 þúsund króna úr. Þegar maðurinn reyndi skyndilega að stela úrinu greip ólétt starfsstúlka verslunarinnar inn í og hugðist hindra för hans. Maðurinn ógnaði henni þá með sprautunál, sparkaði hana niður og hljóp á brott.

„Hleypur í vesturátt og þegar við fengum tilkynninguna beinum við öllum flotanum í það að reyna að finna manninn sem náðist skömmu síðar," segir Ingólfur Már Ingólfsson, varðstjóri á lögreglustöð Vesturbæjar.

Starfsstúlkan var flutt með sjúkrabíl til skoðunar en ekki er vitað hvort hún sé mikið slösuð. Maðurinn hafði einungis umrætt úr á brott með sér en Ingólfur segir að skartgripaverslanir á Laugaveginum séu flestar vel úr garði gerðar til þess að takast á við uppákomur sem þessar.

„Þær eru yfirleitt með myndavélakerfi og þær eru yfirleitt ekki að flagga þeim vörum sem einhver verðmæti eru í," segir Ingólfur Már.

Eigandi verslunarinnar vildi koma því á framfæri að lögreglan hefði sýnt snör viðbrögð í dag, enda hefði þjófurinn náðst skömmu eftir ránið.


Tengdar fréttir

Úraþjófur sparkaði í kvið ófrískrar konu

Karlmaður réðst inn í verslunina Jón Sigmundsson á Laugavegi rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Maðurinn sparkaði í kvið á barnshafandi starfsstúlku í versluninni og hrifsaði úr að andvirði 400 þúsund krónur. Maðurinn var handtekinn um 15 mínútum seinna, en frekari fregnir hafa ekki borist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×