Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin: Mikilvægur sigur hjá Hull

Ómar Þorgeirsson skrifar
Phil Brown hafði ærna ástæðu til þess að brosa í kvöld.
Phil Brown hafði ærna ástæðu til þess að brosa í kvöld. Nordic photos/AFP

Tveir leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þar sem Hull bar sigurorð af Everton og Fulham vann öruggan sigur gegn Blackburn.

Knattspyrnustjórinn Phil Brown hjá Hull gat andað léttar í kvöld þegar lið hans vann 3-2 sigur gegn Everton á KC-leikvanginum.

Heimamenn byrjuðu af miklum krafti og komust í 3-0 eftir tæplega hálftíma leik með mörkum Stephen Hunt, Andy Dawson og Dean Marney. Staðan var enn 3-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Í síðari hálfleik náði Everton að minnka muninn í 3-2 með sjálfsmarki Kamil Zayatte og marki Louis Saha úr vítaspyrnu en lengra gestirnir ekki og gríðarlega mikilvægur sigur Hull í höfn.

Hull er nú komið fjórum stigum frá fallsæti og Brown viriðst ætla að halda starfinu ef heldur sem horfir.

Fulham vann góðan 3-0 sigur gegn Blackburn á Craven Cottage í kvöld en staðan var 1-0 í hálfleik með marki Erik Nevland.

Clint Dempsey bætti svo við tveimur mörkum í síðari hálfleik og innsiglaði sigur heimamanna sem komust upp í tíunda sæti með sigrinum.

Úrslit kvöldsins:

Hull-Everton 3-2

1-0 Stephen Hunt (9.), 2-0 Andy Dawson (20.), 3-0 Dean Marney (28.), 3-1 sjálfsmark (49.), 3-2 Louis Saha (65.).

Fulham-Blackburn 3-0

1-0 Erik Nevland (43.), 2-0 Clint Dempsey (67.), 3-0 Clint Dempsey (88.)










Fleiri fréttir

Sjá meira


×