Innlent

Fantasíumatseðill í fjárlagafrumvarpinu

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir orkuskatt, eins og honum er lýst í fjárlagafrumvarpi, vera fantasíumatseðil sem ekki eigi að taka bókstaflega. Þá kveðst hún áskilja sér rétt til að fara vel yfir úrskurð Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um Suðvesturlínu áður en hún lýsi sig sammála þeirri ákvörðun.

Samtök iðnaðarins, orkugeirinn, álfyrirtækin og fleiri hafa brugðist hart við þeim áformum sem lýst er í fjárlagafrumvarpinu að leggja á sextán milljarða króna orkuskatta og fullyrt að með því verði komið í veg fyrir fjárfestingar og kreppan dýpkuð.

Katrín segir að sér finnist viðbrögð þessara aðila full ofsafengin vegna þess að þegar verið sé að tala um skattheimtuna sé ekki verið að tala um að taka einhverja sérstaklega fyrir heldur sé þetta hugsað á almennum nótum.

Katrín segir það rangt sem haldið hefur verið fram að hún hafi ekki vitað fyrirfram um þessa áformuðu sextán milljarða skattheimtu. Hún hafi hins vegar ekki vitað um þá hugmynd að gera það með einnar krónu gjaldi á kílóvattstund.

"Það sem ég hef hins vegar gagnrýnt - og sagt, er; að það var óþarfi að nefna einhvern svona hálfgerðan fantasíumatseðil í greinargerð með frumvarpinu," segir Katrín, og segir að menn eigi ekki að taka greinargerðina bókstaflega því þetta sé algerlega óútfært.

Hún telur einnar krónu gjald ekki raunhæft. Það verði aldrei mögulegt að setja á slíkt gjald. Það hafi því verið óþarfi að nefna slíkt dæmi í greinargerð fjárlagafrumvarps, eingöngu til þess að þyrla upp moldviðri út af einhverju sem ekki verði að veruleika.

Úrskurður Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um Suðvesturlínu vekur einnig deilur. Spurð hvort hún sé sammála því sem Svandís gerði kveðst Katrín áskilja sér rétt til að fara vel yfir það mál áður en hún svari því.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×