Íslenski boltinn

Kristján: Þegar eitthvað er bilað þarf að gera við

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Keflvíkingar töpuðu sínum öðrum leik í röð í Pepsi-deildinni þegar þeir biðu 3-0 ósigur gegn Breiðablik á heimavelli sínum í Keflavík. Keflvíkingar hafa þar með fengið á sig 8 mörk í tveimur leikjum og það án þess að skora, en sitja ennþá í 4.sæti deildarinnar með 24 stig.

"Við erum búnir að tapa tveimur fótboltaleikjum í röð og fá á okkur 8 mörk. Það þýðir að eitthvað er bilað. Þegar eitthvað er bilað þá þarf að gera við og nú förum við bara í það. Framfarirnar voru ekki sérstaklega miklar frá því í síðasta leik. Það sem við eigum að kunna í fótbolta á þessum aldri erum við ekki að framkvæma. ," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur í samtali við Vísi eftir tapið í kvöld, en Kristján sagði eftir 5-0 tapið gegn Fram í síðustu umferð að það hefði verið slakasti leikur liðsins undir hans stjórn.

Í kvöld vantaði nokkra lykilmenn í lið Keflavíkur og meðal annars var Lasse Jörgensen markvörður meiddur auk þess sem Símun Samuelsen var í leikbanni. Ómar Jóhannsson var því í fyrsta skipti í markinu í sumar.

"Það þýðir ekkert að taka út einhverja einstaklinga. Við verðum bara að segja að liðið hafi ekki verið að standa sig. Símun spilaði leikinn gegn Fram og hann tapaðist. Það er ekkert hægt að tína einstaka menn út. Lasse er meiddur og gat ekki spilað en Ómar er heldur ekki alveg klár í slaginn, en hann gat spilað í kvöld," bætti Kristján við.

"Nú þurfum við að byrja á því að finna hvað er bilað og fara að gera við. Við sjáum ekki alveg hvað er að, náum ekki alveg að setja fingurinn á það. En vonandi tekst okkur það og vonandi erum við búnir að taka út öll þessi mistök og lélegheit í þessum tveimur leikjum og förum að rétta okkar hlut við," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×