Innlent

Þekktir fyrir ofbeldisverk hér á landi

Mennirnir fimm voru leiddir fyrir dómara í gær, sem féllst á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um framlengingu gæsluvarðhalds þeirra.
Mennirnir fimm voru leiddir fyrir dómara í gær, sem féllst á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um framlengingu gæsluvarðhalds þeirra.

Menn í hópi fimm Litháa sem enn sitja í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu á skipulagðri glæpastarfsemi hér, þar á meðal mansali, eru þekktir að ofbeldisverkum hér á landi. Fimmmenningarnir voru í gær úrskurðaðir í Héraðsdómi Reykjaness í áframhaldandi gæsluvarðhald til 2. desember eða í þrjár vikur til viðbótar, að kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Sumir mannanna eru tengdir við árás á óeinkennisklæddan lögreglumann sem var við fíkniefnaeftirlit á Laugavegi í janúar 2008. Þá veittist hópur manna að honum. Hann var ítrekað sleginn, meðal annars í höfuðið, og sparkað í höfuð hans að minnsta kosti tvisvar eftir að hann var felldur í götuna. Við þetta hlaut lögreglumaðurinn heilahristing og sár víðs vegar á líkamanum.

Þá tengjast sumir þeirra sem inni sitja hrottalegri líkams­árás í húsi við Grettisgötu í byrjun júní. Sá sem ráðist var á hlaut lífshættulega áverka af árásinni, sem stóð yfir heila nótt. Hann þurfti að vera um skeið í öndunarvél.

Þriðja líkamsárásin þar sem sumir fimmmenninganna koma við sögu var í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík, einnig í júní. Þá var ráðist á mann og hann illa leikinn. Hann hlaut brot í andliti og marga langa og gapandi skurði á höfði. Auk þess var hann með ýmiss konar áverka á höfði, brjóstkassa og útlimum.

Gæsluvarðhald yfir fimmmenningunum var í gær framlengt um þrjár vikur, eins og áður sagði. Þeir hafa kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Íslendingi sem setið hefur í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu, var hins vegar sleppt, þar sem ekki var gerð krafa um framlengingu yfir honum. Hann hafði haft ýmis tengsl við fimmmenningana. Meðal annars höfðu þrír þeirra unnið hjá fyrirtæki sem hann rekur.

Upphaf þessarar umfangsmiklu rannsóknar má rekja til þess er nítján ára litháísk stúlka kom hingað til lands með flugi frá Varsjá í Póllandi fyrir nokkrum vikum. Hún trylltist á leiðinni í vélinni og var handtekin við komuna til landsins. Grunur vaknaði um að hún hefði verið flutt til landsins sem fórnarlamb mansals og fóru fram handtökur í framhaldi af því. Rannsókn lögreglu hefur undið umtalsvert upp á sig og teygir nú anga sína víða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×