Erlent

Mikil flóð á slóðum Vestur-Íslendinga

Umflotin hús í útjaðri bæjarins Fargo umflotin vatni og krapa. Venjulegur farvegur Rauðár er milli trjáraðanna sem liggja í sveig bak við húsin. fréttablaðið/ap
Umflotin hús í útjaðri bæjarins Fargo umflotin vatni og krapa. Venjulegur farvegur Rauðár er milli trjáraðanna sem liggja í sveig bak við húsin. fréttablaðið/ap

Gríðarmikið flóð í Rauðá (Red River) vestur í Bandaríkjunum ógnar nú þúsundum heimila í Norður-Dakóta, á slóðum þar sem stór hluti íbúanna er afkomendur norrænna landnema.

Miklar sveiflur í hitastigi síðustu daga, gríðarmikil snjóalög og óvenju mikil úrkoma hafa lagst á eitt um að valda verri flóðum á þessum slóðum en mælst hafa í 112 ár.

Fimmtán hundruð íbúar voru fluttir fyrir helgi úr húsum sínum í Bismarck, höfuðborg Norður-Dakóta, en hafa nú fengið að snúa aftur heim. Öllu ískyggilegra er ástandið í bænum Fargo, þar sem vatnshæðin hefur ekki mælst meiri síðan árið 1897. Hún var rúmlega tólf metrar í gær, en var þá í rénun frá því sem hún mældist mest um helgina.

Óttast var í gær að flóðgarðar sem byggðir voru í hasti úr sandpokum myndu gefa sig í hríðinni sem spáð var að skylli á í dag. Í suðurhluta ríkisins var búist við allt að 30 sentimetra snjókomu.

Þúsundir þjóðvarðliða frá Norður-Dakóta og nágrannaríkjunum Minnesota og Suður-Dakóta tóku þátt í að styrkja flóðgarða í kring um byggðina þar sem hættan var mest. Þyrlum var beitt til að hífa risasandsekki þangað sem mest þörf þótti á að styrkja varnargarðana.

John Poul Martin, talsmaður veðurstofunnar, sagði hættuna mikla og að íbúar Fargo yrðu að vera undir það búnir að yfirgefa heimili sín.

Í næstu viku á svo að hlýna aftur til muna sem skapar enn meiri hættu á skaðræðis hlákuflóðum. audunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×