Innlent

Þingvallanefnd vill opna veg um risalóð

Þingvallanefnd sættir sig ekki við að eigandi þriggja bústaða í Gjábakkalandi loki á almenning með keðjum og bannskiltum.Fréttablaðið/Vilhelm
Þingvallanefnd sættir sig ekki við að eigandi þriggja bústaða í Gjábakkalandi loki á almenning með keðjum og bannskiltum.Fréttablaðið/Vilhelm

„Ég á von á því að þessum sumarbústaðaeiganda verði skrifað og hann beðinn að fjarlægja þetta skilti og þessa keðju því það samrýmist ekki lögum um þjóðgarðinn að hefta för um hann með þessum hætti,“ segir Álfheiður Ingadóttir, formaður Þingvallanefndar, um lokaðan veg um sumarbústaðalönd í Gjábakkalandi.

Félögin Gjábakki ehf. og Vatnsvík ehf. hafa frá því 2004 keypt þrjá sumarbústaði á samliggjandi leigulóðum í Gjábakka innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Stærsta húsið er bústaður sem Gísli Jónsson alþingismaður átti og gaf SÍBS fyrir rúmum fjörutíu árum. Þeim bústað fylgir fjórtán hektara leigulóð í eigu ríkisins. Lauslega áætlað er lóðin um þrjátíu sinnum stærri en meðal sumarhúsalóð.

Skráður eigandi Gjábakka ehf. og Vatnsvíkur ehf. er Ólafur H. Jónsson. Með Ólafi í stjórn þessari félaga er dóttir hans Kristín Ólafsdóttir. Hún er eiginkona Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Þingvallanefnd hefur ráðfært sig við lögfræðing í tilefni þess að vegi sem liggur að leigulóðum áðurnefndra bústaða hefur verið lokað með keðju og hann merktur sem einkavegur.

„Þetta er alveg fáránlegt þegar menn eru að búa til fréttir um aðra um ekki neitt. Ég held að þú eigir að fara að snúa þér að því að fara að hugsa um það að skrifa eins og maður en ekki fara eftir skítlegu eðli þinna ritstjóra og annarra manna sem í kringum ykkur eru,“ segir Ólafur H. Jónsson meðal annars.

Álfheiður Ingadóttir segir að í lögum um þjóðgarðinn séu mjög skýr ákvæði um að almenningi eigi að vera heimil för um þjóðgarðinn. „Þetta er þjóðgarður og hann er eign okkar allra Íslendinga,“ segir formaður Þingvallanefndar og upplýsir að nefndin hafi samþykkt árið 2003 að lóðin við gamla SÍBS-bústaðinn verði minnkuð niður í einn hektara við næstu endurskoðun lóðaleigusamningsins sem vera eigi um mitt næsta ár. gar@frettabladid.

Ólafur H. Jónsson
Álfheiður Ingadóttir


Hengilás Nær bústaðnum er annað hlið með hengilás.Fréttablaðið/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×