Innlent

Segist hafa sogið bensín en ekki áfengi

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Mynd/Anton Brink
Karlmaður sem var sviptur ökuleyfi tímabundið fyrr á árinu segir að bensín sem hann saug upp í sig hafi ruglað áfengismæla lögreglu. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst nýverið ekki á þá skýringu og Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð í dag.

Lögreglan stöðvaði manninn þar sem hann ók bifreið eftir Mosfellsdal fimmtudaginn 28. maí fyrr á þessu ári. Lögreglumenn grunaði að hann væri undir áhrifum áfengis og segir í skýrslu að fundist hafi áfengislykt af honum. Maðurinn viðurkenndi hafa drukkið áfengi kvöldið áður og um nóttina. Hann blés í áfengismæli og var niðurstaða 2,50 prómill. Í framhaldinu var hann sviptur ökuleyfi til bráðabrigða.

Maðurinn leitaði til læknis sama dag og lögregla stöðvaði hann vegna kviðverkja sem taldir eru hafa verið vegna bakflæðis. Hann hafði að sögn verið á biluðum mótorbát og þurft að sjúga upp bensín. Læknisvottorð sem maðurinn lagði fram máli sínu til stuðnings var ótímasett.

Maðurinn fullyrti að hann hafi ekki verið undir áhrifum áfengis. Hann hafi sogið upp bensín og að svo virtist sem að bensínið hafi ruglað mælinguna og hún þess vegna sýnt að hann væri undir áhrifum áfengis.

Hvorki héraðsdómur sé Hæstiréttur féllust á skýringar mannsins. Hann þarf samanlagt að greiða rúmlega 214 þúsund krónur í málskostnað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×