Íslenski boltinn

Willum: Menn spiluðu með hjartanu

Valsmenn fögnuðu í kvöld.
Valsmenn fögnuðu í kvöld.

Valsmenn unnu þægilegan 3-1 sigur á Fjölni í kvöld á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda og fengu þar með sín fyrstu stig í Pepsi-deildinni í sumar.

"Mér fannst hugarfarið svakalega sterkt í dag. Allt liðið barðist vel, menn spiluðu með hjartanu og voru staðráðnir í því að sanna sig," sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Vals í samtali við Vísi að leik loknum.

"Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að koma hér á heimavöll og vinna sigur því fyrstu stigin eru alltaf erfið. Fjölnisliðið er hörkulið og sýndi það gegn KR þar sem þeir gátu auðveldlega unnið. Þess vegna undirbjuggum við okkur vel fyrir þennan leik og mættum grimmir. Við ákváðum að pressa þá framarlega, reyna að færa boltann hratt út á kantana til að fá fyrirgjafir og mér fannst það ganga vel í fyrri hálfleik," bætti Willum við.

Valsmenn höfðu tögl og haldir fyrstu 30 mínútur leiksins og fóru illa með nokkur færi. En þá komust Fjölnismenn inn í leikinn og náðu að minnka muninn.

"Mér fannst óeðlilegt að vera með 2-1 stöðu í hálfleik því við gátum klárað leikinn í fyrri hálfleik. Þetta datt niður hjá okkur síðasta korterið í fyrri hálfleik og eins fannst mér við bíða fulllengi eftir að leikurinn kláraðist í stað þess að klára hann allt til enda, en Fjölnisliðið gefur aldrei eftir," sagði Willum.

Marel Baldvinsson átti stórleik í liði Vals og Willum var mjög ánægður með hans þátt í sigri liðsins.

"Marel þyrsti greinilega í að spila fótbolta því hann fór á kostum hér í kvöld," sagði kampakátur Willum eftir leik.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×