Enski boltinn

Ali Dia sá ónothæfasti

Elvar Geir Magnússon skrifar
Dia náði að leika í ensku úrvalsdeildinni eftir ótrúlega svikamyllu.
Dia náði að leika í ensku úrvalsdeildinni eftir ótrúlega svikamyllu.

The Sun hefur tekið saman lista yfir ónothæfustu leikmenn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Þar trjónir á toppnum merkilegur leikmaður, Ali Dia, en hann lék aðeins einn leik með Southampton í ensku úrvaldeildinni. Saga hans er hreint ótrúleg.

Dia hafði leikið í neðstu deildum Frakklands og Þýskalands þegar hann ákvað að reyna fyrir sér í enska boltanum. Hann æfði til reynslu með Port Vale, Gillingham og Bournemouth án þess að fá samning.

Graeme Souness, þá stjóri Southampton, ákvað hinsvegar að semja við leikmanninn árið 1996. Souness hafði þá fengið símtal frá manni sem þóttist vera George Weah, fyrrum besti leikmaður heims. Souness keypti það en í raun og veru var þetta umboðsmaður Dia.

Souness hélt að Dia væri frændi George Weah og ætti þrettán landsleiki að baki fyrir Senegal. Það allt saman var hinsvegar lygi. Souness gleypti þessa svikamyllu og gerði eins mánaða samning við Dia sem fékk í hendurnar treyju númer 33.

Souness ætlaði að skoða Dia í varaliðsleik en þeim leik var frestað vegna þess að völlurinn þótti óleikhæfur. Þann 23. nóvember 1996 var Dia valinn í leikmannahóp aðalliðsins gegn Leeds United og byrjaði á bekknum. Þegar Matthew Le Tissier meiddist eftir 32 mínútur ákvað Souness að veðja á Dia og setti hann inná.

Það sást strax að Dia var alls ekki í þeim gæðaflokki að spila í ensku úrvalsdeildinni. Hann var hreint átakanlega slakur og var tekinn af velli á 53. mínútu. Leeds vann leikinn 2-0.

Le Tissier sagði sögu leikmannsins í sjónvarpsviðtali. Dia var aðeins eina helgi í herbúðum Southampton. Hann mætti á æfingu á föstudagsmorgni og leit ekki vel út á æfingunni. Leikmenn Southampton bjuggust ekki við að sjá hann aftur en óvænt var Dia valinn á bekkinn gegn Leeds og kom síðan inn sem varamaður.

„Þetta var ótrúlegt. Hann var eins og dádýr á ís og það var virkilega neyðarlegt að sjá hann spila. Á sunnudagsmorgun var hann meiddur og svo yfirgaf hann félagið og enginn vissi hvert hann fór," sagði Le Tissier. Southampton sagði upp samningnum við Dia sem lék síðan í ensku utandeildinni í eitt ár. Engar fréttir bárust af honum í langan tíma eftir það hann fór síðan í viðskiptanám í háskóla í Newcastle og útskrifaðist árið 2001.

Hér að neðan má sjá tíu ónothæfustu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar að mati The Sun.

1. Ali Dia (Southampton)

2. Marco Boogers (West Ham)

Var keyptur árið 1995 og miklar vonir bundnar við hann. Stóð sig engan veginn og hvarf aftur til Hollands eftir að hafa verið rekinn af velli gegn Manchester United.

3. Winston Bogarde (Chelsea)

Eftir að hafa verið hjá stórliðum eins og Ajax, Barcelona og AC Milan fann hann sig engan veginn á Englandi og var mest geymdur á bekknum. Kom til Chelsea árið 2000.

4. Titus Bramble (Newcastle og önnur lið)

Var keyptur á háar fjárhæðir til Newcastle Gerir glórulaus mistök með reglulegu millibili en alltaf virðist vera pláss fyrir hann í úrvalsdeildinni... óskiljanlegt.

5. Tomas Brolin (Leeds)

George Graham ákvað að kaupa hann á 4,5 milljónir punda árið 1995. Í engu formi lék Brolin 19 leiki fyrir Leeds áður en hann var lánaður til FC Zurich.

6. Ramon Vega (Tottenham)

Svissneskur landsliðsmaður sem lagði sig alltaf allan fram en gat lítið sem ekkert. Stuðningsmenn Tottenham þoldu hann ekki.

7. Sean Dundee (Liverpool)

Það kom engum á óvart nema Gerard Houllier að Dundee floppaði hjá Liverpool. Houllier keypti hann á 2 milljónir punda.

8. Michele Padovano (Crystal Palace)

Stuðningsmenn Crystal Palace fögnuðu þegar þeir heyrðu að félagið væri að kaupa sóknarmann frá Juventus. Padovano lék aðeins átta leiki í byrjunarliðinu og fór síðan frítt til Metz árið 1998.

9. Massimo Taibi (Manchester United)

Markvörðurinn sem stuðningsmenn United eru að reyna að gleyma. Vonir voru bundnar við Taibi en hann fékk á sig glórulaus mörk og er ekki saknað á Old Trafford.

10. Frank Sinclair (Leicester)

Stuðningsmenn Chelsea eru kannski ekki á því að Sinclair eigi skilið að vera á listanum. En leikmaðurinn var agalegur hjá Leicester og skoraði tvö sjálfsmörk í þremur leikjum í upphafi tímabilsins 1999-2000.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×