Innlent

Segja Norðmenn ekki í stöðu til að gagnrýna makrílveiðar

Samtök framleiðenda uppsjávarfisks í Danmörku líta svo á að Norðmenn séu ekki í neinni aðstöðu til að kvarta undan makrílveiðum Íslendinga.

Christian Olsen, talsmaður samtakanna, segir í samtali við Fishing News International, að bæði Norðmenn og Færeyingar hafi úthlutað sér viðbótarkvótum í makríl.

Fjallað er um málið á vefs´siðu LÍÚ. Þar segir að Olsen sé ekki ánægður með þá ákvörðun Íslendinga að heimila veiðar á 112.000 tonnum af makríl á þessu ári. Danir eru innan Evrópusambandsins og Olsen heldur því fram að ESB sé í raun eini ábyrgi aðilinn við stjórnun makrílveiðanna.

„Frá sjónarhóli sambandsins er erfitt að sjá einhvern mun á aðgerðum Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga," segir Olsen.

Ósk Íslands um að fá að koma að ákvörðunum um stjórn veiðanna hefur ítrekað verið hafnað eins og Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, sagði í frétt fyrr í vikunni. Hann sagði rétt Íslendinga til þessara veiða óskoraðan og að ekki við okkur að sakast þótt við þyrftum að setja okkur veiðiheimildir einhliða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×