Innlent

Vill skýra sýn í atvinnu- og orkumálum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Unnur Brá Konráðsdóttir kallar eftir skýrari sýn í atvinnu- og orkumálum. Mynd/ Anton.
Unnur Brá Konráðsdóttir kallar eftir skýrari sýn í atvinnu- og orkumálum. Mynd/ Anton.

Ákvörðun iðnaðarráðherra um að framlengja ekki viljayfirlýsingu um álver á Bakka kemur Unni Brá Konráðsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, á óvart. Yfirlýsingar um málið hafi verið í hina áttina undanfarna daga.

„En það kemur kannski ekki á óvart að það er stefnuleysi í þessum málaflokki hjá ríkisstjórninni," segir Unnur Brá, sem á sæti í iðnaðarnefnd Alþingis. Hún segist hafa reynt að fá svör frá iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra hver stefnt yrði í þessum málaflokki. „Það hefur ekki komið fram og það kannski kristallast í þessum máli," segir Unnur Brá. Hún kallar eftir skýrari sýn ríkisstjórnarinnar í orku- og atvinnumálum. „Það á bara að gera eitthvað annað og það hefur ekki komið fram hvað þetta annað er," segir Unnur Brá.

Unnur Brá bendir á að orkan sem Íslendingar búi að og eigi sé helsta auðlindin. „Ef við ætlum ekki í dag að grípa þau tækifæri sem eru til staðar og nýta þau til að fjölga hér atvinnutækifærum og auka gjaldeyristekjur að þá sé ég ekki hvernig þau ætla að koma okkur út úr þessu ástandi," segir Unnur Brá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×