Innlent

Hver nemandi kostar 1,1 milljón króna

Ekki áhyggjuefni Það er umhugsunarefni en ekki áhyggjuefni að aðeins 39 prósent karla sem hefja háskólanám útskrifist en 89 prósent kvenna, segir Jón Torfi Jónasson.
Ekki áhyggjuefni Það er umhugsunarefni en ekki áhyggjuefni að aðeins 39 prósent karla sem hefja háskólanám útskrifist en 89 prósent kvenna, segir Jón Torfi Jónasson.

Ísland eyðir hlutfallslega mest allra aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) til menntamála, að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem stofnunin hefur sent frá sér.

Ísland eyddi árið 2006 um átta prósentum af vergri landsframleiðslu til menntamála, en meðaltalið innan OECD var þá 5,7 prósent. Alls fóru 18,1 prósent útgjalda íslenska ríkisins til menntamála árið 2006, en meðaltalið hjá öðrum OECD-ríkjum var um 13,3 prósent.

Ísland eyðir hærri upphæð við að mennta hvern einstakling en önnur ríki OECD. Meðalkostnaður á hvern nemanda, frá grunnskóla upp í háskóla, voru árið 2006 um 7.840 bandaríkjadalir, jafnvirði 975 þúsund króna. Á Íslandi kostaði menntun hvers nemanda hins vegar 8.823 dali, sem er að núvirði 1,1 milljón króna. Það er um 12,5 prósent yfir meðaltali OECD.

Í skýrslunni kemur einnig fram að mikill munur sé á útskriftarhlutfalli úr háskóla eftir kyni. Tæplega 39 prósent karla sem hefja nám í háskóla útskrifast með háskólagráðu, en tæplega 89 prósent kvenna. Þessi munur er hvergi meiri innan OECD.

Jón Torfi Jónasson, forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands, segir þróunina hér í samræmi við það sem sé að gerast erlendis, þótt hlutfallið sé ýktara hér en annars staðar.

„Ég myndi ekki segja að þetta sé áhyggjuefni, en þetta er kannski frekar umhugsunarefni,“ segir Jón Torfi.

Engin einhlít skýring hefur fengist á þessum mikla mun. Jón Torfi segir að mögulega tengist hann því að konur virði frekar en karlar regluverk samfélagsins, sem geri ákveðnar menntunarkröfur til starfsfólks á ákveðnum sviðum. Þá geti verið að háskólanám liggi betur við fleiri konum en körlum.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×