Innlent

Kreppa áfram næstu árin

Spá Húsnæðisverð á enn eftir að lækka að mati greiningar Íslandsbanka, en óvissa veldur erfiðleikum þegar reynt er að spá fyrir um endalok kreppunnar.Fréttablaðið/Vilhelm
Spá Húsnæðisverð á enn eftir að lækka að mati greiningar Íslandsbanka, en óvissa veldur erfiðleikum þegar reynt er að spá fyrir um endalok kreppunnar.Fréttablaðið/Vilhelm

Ólíklegt er að Ísland komist út úr kreppunni fyrr en eftir nokkur ár, að mati sérfræðinga greiningar Íslandsbanka. Atvinnuleysi á enn eftir að aukast, kaupmáttur mun rýrna meira og húsnæðisverð lækka áður en kreppunni slotar.

Sérfræðingar greiningar Íslandsbanka eru því ósammála Má Guðmundssyni seðlabankastjóra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra. Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær telja þeir að Ísland fari að komast út úr kreppunni á fyrri hluta næsta árs, og hagvöxtur komi í kjölfarið.

„Ísland mun þannig í hugum flestra ekki koma út úr kreppunni á fyrri helmingi næsta árs þegar atvinnuleysi verður í hámarki, kaupmáttur í lágmarki og erfiðleikar miklir hjá fjölda fyrirtækja og heimila,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka. „Það er mun lengra í að Ísland vinni sig að fullu út úr kreppunni á þessa mælikvarða.“

Búast má við erfiðum vetri í íslensku efnahagslífi og mikil óvissa er enn um úrlausn mikilvægra mála við uppbyggingu efnahagslífsins eftir hrunið. Það geri tímasetningar í öllum spám um hvenær botni kreppunnar verði náð afar erfiðar, segir í Morgunkorninu. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×