Innlent

Íslenskir dagar í Seattle

samvinna Helgi Már Björgvinsson hjá Icelandair, Svanhildur Konráðsdóttir hjá Reykjavíkurborg, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, og Pétur Þ. Óskarsson, formaður stjórnar Iceland Naturally.fréttablaðið/gva
samvinna Helgi Már Björgvinsson hjá Icelandair, Svanhildur Konráðsdóttir hjá Reykjavíkurborg, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, og Pétur Þ. Óskarsson, formaður stjórnar Iceland Naturally.fréttablaðið/gva

„Þetta er dæmi um gríðarlega vel heppnað samstarf stjórnvalda og fyrirtækja í landinu. Einnig er þetta góð fyrirmynd í því efni, því miklu máli skiptir að þessir aðilar séu samstiga,“ segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.

Útflutningsráð, sjávar- og landbúnaðarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Icelandair, Icelandic USA Inc., Icelandic Glacial, Reyka Vodka, 66°Norður, Bláa lónið og Fiskifélag Íslands taka beinan þátt í kynningu á Íslandi og íslenskum vörum og þjónustu í Seattle næstu daga. Kynningin, sem ber nafnið A Taste of Iceland, er liður í samkomulaginu Iceland Naturally, sem íslensk stjórnvöld og nokkur íslensk fyrirtæki gerðu fyrst með sér í tengslum við landafundahátíðina vestanhafs árið 2000.

Samkomulagið miðar að því að styrkja ímynd Íslands og auka áhuga á íslenskri ferðaþjónustu og vörum. Það var síðast endurnýjað til fimm ára í upphafi ársins. Katrín segir ekkert launungarmál að tilgangurinn sé að sækja tekjur til handa fyrirtækjum á Íslandi í gegnum aukinn ferðamannastraum.

„En þetta er líka spurning um ímyndarvinnu fyrir landið. Þetta samspil stjórnvalda og fyrirtækja skiptir mjög miklu máli í því sambandi.

Ferðamannastraumurinn frá Norður-Ameríku hefur aukist um sjö prósent það sem af er árinu, og ég er himinlifandi yfir þeim tölum. Það er mikilvægt að halda vöku sinni og alls ekki gefa eftir í þessum efnum,“ segir Katrín, og nefnir sem dæmi að í gær hafi verið samþykkt í ríkisstjórn að farið verði í sérstakt markaðsátak með ferðaþjónustunni. Meðal annars horfi hún mjög til heilsutengdrar ferðaþjónustu. Sérstök herferð, sem miðar að því að markaðssetja slíka þjónustu, verði kynnt í vetur.

Pétur Þ. Óskarsson, formaður stjórnar Iceland Naturally, segir lykilatriði að kynningar á vegum verkefnisins veki athygli þarlendra fjölmiðla.

„Við erum að feta okkur meira og meira í átt að svona viðburðum, því reynslan hefur sýnt að þeir virka best. Stefnan er að halda þrjá til fimm viðburði yfir háannatímann.

Núna er kynning í Seattle, næst er stefnan tekin á Boston, svo Toronto og þar fram eftir götunum. Þegar verkefnið hófst fyrir tíu árum tóku fjögur einkafyrirtæki þátt, en nú eru þau orðin tíu. Í raun má segja að flest fyrirtæki sem eru að skoða Ameríku af fullri alvöru taki þátt í verkefninu,“ segir Pétur.

kjartan@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×