Innlent

VG vilja einkavæða bílastæðahús borgarinnar

Þorleifur Gunnlaugsson oddviti VG í borginni.
Þorleifur Gunnlaugsson oddviti VG í borginni.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samþykkti tillögu VG á fundi borgarráðs í dag um könnun á kostum þess að bílastæðahús borgarinnar verði seld. Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Fulltrúar Samfylkingarinnar bókuðu hinsvegar fyrirvara við málið og sátu hjá.

Í bókun Samfylkingarinnar segir að augljóst sé að þetat gæti leitt til stórhækkunar á bílastæðagjöldum í borginni. Þá sé vandséð hvernig hægt verði að aðskilja stefnu um verðlagningu og aðgengi að miðborginni frá rekstri bílastæðahúsa. Jafnframt séu augljós tengsl milli verðlagningar og aðgengi að bílastæðahúsum og öðrum bílastæðum á jörðu niðri.

„Spurningar vakna því hvort þau eigi einnig að selja. Vegna mikilvægis málsins og því hversu viðkvæmt það er þarf Reykjavíkurborg jafnframt að nálgast athugun á því með alla þá hagsmuni sem málefninu tengjast undir. Það felur í sér að meta öll hugsanleg áhrif og hliðaráhrif til langs og skamms tíma við þessa breytingur og að hafa þurfi ítarlegt samráð við verslunarrekendur og íbúa áður en nokkur skref eru stigin í þessa veru," segir í bókuninni.

Þorleifur Gunnlaugsson oddviti VG í borginni hafði samband við Vísi en hann segir ástæðu þess að flokkurinn vilji láta kanna þennan kost sé fyrst og síðast tengt fyrirséðum niðurskurði á næsta ári.

„Staðan er sú að okkur sýnist við vera að sigla í fimm milljarða mínus miðað við þriggja ára áætlunina og það verður að fara í verulegan niðurskurð," segir Þorleifur en hann segir velferðar- og menntamál vera í forgangi hjá VG.

„Þá horfum við í kringum okkur á það sem mætti skera niður eða selja. Þá sjáum við þennan möguleika en að sjálfsögðu er sá fyrirvari settur að hagsmunir bílaeigenda verði í fyrirrúmi, það er í okkar greinargerð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×