Innlent

Stöðugt GSM-samband í Þórsmörk

Ægifagurt umhverfi Nýr farsímasendir á Þórólfsfelli. Í baksýn skríður Gígjökull fram úr Eyjafjallajökli.
Mynd/Sigurður Ingi Hauksson
Ægifagurt umhverfi Nýr farsímasendir á Þórólfsfelli. Í baksýn skríður Gígjökull fram úr Eyjafjallajökli. Mynd/Sigurður Ingi Hauksson

GSM-símasamband er nú komið inn í Þórsmörk eftir að settur var upp GSM-sendir á Þórólfsfelli.

„Þar til nú hefur farsímasamband í Þórsmörk verið stopult og bundið við lítið svæði í Básum en nú hefur orðið breyting þar á sem eykur þægindi og öryggi ferðamanna á svæðinu,“ segir Guðmundur Pálsson, tæknimaður hjá Vodafone. Símafyrirtækið á nýja sendinn, sem nær bæði til Bása og Langadals.

Að sögn Guðmundar var um leið tekinn í notkun sendibúnaður frá Neyðar­línunni. Sá búnaður tryggir öryggis­fjarskiptasamband fyrir lögreglu og björgunar­sveitir á svæðinu um Tetra-fjarskiptakerfið.

„Um nýjan sendistað fyrir Neyðar­línuna var að ræða og því þurftu starfsmenn hennar, tæknimenn Vodafone og verktakar að leggja mikið á sig til að koma búnaðinum upp,“ segir Guðmundur, sem segir fjarskiptaþjónustu í Þórsmörk nú vera eins og best verði á kosið.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×