Innlent

Íslendingar eftirbátar í móðurmálskennslu

Íslensk málnefnd segir að auka þurfi íslenskukennslu í grunnskólum enda er hún talsvert minni en í nágrannalöndunum. fréttablaðið/gva
Íslensk málnefnd segir að auka þurfi íslenskukennslu í grunnskólum enda er hún talsvert minni en í nágrannalöndunum. fréttablaðið/gva
Ef við leggjum ekki rækt við íslensku í skólakerfinu er hætt við að framtíð hennar verði ógnað. Svo segir í niðurlagi ályktunar Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu árið 2009.

Í henni er fundið að íslenskukennslu á öllum stigum skólakerfisins og lögð til markmið og aðgerðir til úrbóta. Er það gert í því ljósi að nú er unnið að samningu námskráa fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Sérstök athygli er vakin á því að í íslenskum grunnskólum er minni tíma varið til móðurmálskennslu en í grunnskólum annars staðar á Norðurlöndunum. „Í þeim öllum fór af stað sérstakt átak í kjölfar Pisa-rannsókna á þessum áratug. Því er ekki að heilsa hér á landi í jafn ríkum mæli,“ segir í ályktuninni. Enn fremur segir að í grunnskóla sé lagður grunnur að öllu námi nemenda á lífsleiðinni og gott vald á íslensku sé undirstaða alls frekara náms í framhaldsskóla og háskóla.

Íslensk málnefnd gagnrýnir líka stöðu íslenskukennslu í framhaldsskólum og varar við hugmyndum um að fækka einingum í íslensku til stúdentsprófs. Þá vekur nefndin athygli á að kennaranemar geti öðlast kennarapróf frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands án þess að hafa fengið þar eina einustu kennslustund í íslensku.

Að endingu er áhyggjum lýst af því að nánast allur helsti hugbúnaður í tölvum sé yfirleitt á ensku, andstætt því sem gerist í nágrannalöndunum. Hlýtur það að teljast bæði eðlileg og sjálfsögð krafa að íslenskir nemendur hafi aðgang að tölvum á íslensku, segir Íslensk málnefnd.

Sjónum verður beint að íslensku í skólum á málræktarþingi sem fram fer í hátíðarsal HÍ í dag.

bjorn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×