Geir Haarde forsætisráðherra rangtúlkar skilaboð um framhald ríkisstjórnarsamstarfsins sem hann hefur fengið í samtölum við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra síðastliðna tvo daga. Þetta fullyrti Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarkona Ingibjargar, við nokkra samflokksmenn sína í gær.
Geir sagði í fjölmiðlum í gær að hann hefði talað við formann Samfylkingarinnar þann daginn og þau væru ekkert á þeim buxunum að slíta stjórnarsamstarfi eins og sakir stæðu.
Ögmundur Jónasson sagði í samtali við Fréttastofu seint í gærkvöld að hann og Össur Skarphéðinsson hefðu átt fund í iðnaðarráðuneytinu fyrr um daginn. Samkvæmt heimildum Fréttastofu var umræðuefnið mögulegt stjórnarsamstarf. Ekki hefur náðst í Kristrúnu í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Samkvæmt heimildum Fréttastofu er von á yfirlýsingu frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur síðar í dag.
Geir rangtúlkar skilaboð frá Ingibjörgu Sólrúnu
